Slow motion kerfi eyðir milljörðum í rannsóknir.

Eftir það áfall sem við urðum fyrir í október 2008 hefur margt breyst. Eitt af því augljósa er að eftirlitsstofnanir, ákæruvald og dómskerfið hafa aukið umsvif sín gríðarlega. Það er eftirtektarvert hvað allt gengur hægt fyrir sig. Eitthvað sem maður gæti ætlast til að tæki daga eða vikur að framkvæma tekur nú mánuði og ár. Smámál dragast í kerfinu svo mánuðum eða árum skiptir og það er vafamál hvort meðalhófsregla stjórnsýslulaga sé virt.

Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar er á þá leið að efni ákvörðunarinnar verður að vera til þess að ná markmiði sem að er stefnt. Velja ber vægasta úrræði sem að gagni geta komið. Hóf verður að vera í beitingur þess úrræðis sem valið er. Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.

Núna eru 13 mánuður liðnir síðan Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lagði fyrir Samkeppniseftirlitið að rannsaka nánar verðlagningu MS á hrámjólk. En það bólar ekkert á niðurstöðu. Er það virkilega svo flókið að meta það hvort farið var eftir samningum eða ekki?

Það er liðnir 15 mánuðir síðan starfsmaður Samkeppniseftirlitsins lak gögnum í Kastljós um meint verðsamráð Eimskips og Samskips. En ekkert bólar á niðurstöðu. Á sama tíma hóf Ríkissaksóknari rannsókn á lekanum og ekkert bólar á niðurstöðu. Á sama tíma upplýsti Sérstakur saksóknari að ekki væri farið að rannsaka mál starfsmanna sem Samkeppniseftirlitið kærði til SS.

Hvað er að gerast, liggja þessi mál ofan í skúffu hjá öllum þessum stofnunum. Getur verið að þessi mál séu svo flókin að það sé ekki hægt að komast að neinni niðurstöðu eða eru þau svo matskennd að það er erfitt að finna og rökstyðja hvort að afbrot hafi verið framið. A.m.k. er þetta óboðleg stjórnsýsla.

Þurfti það að taka rúm þrjú ár að rannsaka meint gjaldeyrisbrot Samherja til komast að því að þar voru engin brot á ferðinni, ekki einu sinni eitthvað nudd utan í regluverkið. Azerta málið byrjaði í janúar 2010 með blaðamannafundi þar sem blásið var í herlúðra og því er ennþá ólokið.

Hvað er það sem afsakar svona vinnubrögð. Var engin ástæða fyrir Umboðsmann Alþingis að grípa í taumana. Í lok árs 2010 og byrjun árs 2011 hleraði Samkeppniseftirlitið og Sérstakur saksóknari síma hjá nokkrum fyrirtækum til að hlusta á starfsmenn gera verðkannanir. Af einhverjum ástæðum voru þetta álitin stórkostleg samkeppnislagabrot sem voru upprætt með handtökum og húsleitum.
Fjórum árum síðar eða 12.000 klukkustundum af vinnu starfsmanna Sérstaks saksóknara kemur ákæran fram. Héraðsdómur kom með afdráttarlausa niðurstöðu að um verðkannanir hafi verið að ræða en ekki harðsvírað samkeppnislagabort. Þessu var áfrýjað til Hæstaréttar enda mál sem talið var bráðnauðsynlegt að fá Hæstaréttarúrskurð. Voru símtölin verðkönnun eða samkeppnislagabrot? Núna nákvæmlega 5 árum síðar er þetta mál ekki ennþá komið á dagskrá Hæstaréttar.

Til hvers var þessi leiðangur farinn, var einhver sem virkilega trúði því að þessir starfsmenn í þjónustuveri væru að fremja stórkostleg samkeppnislagabrot?

Fyrir nokkrum vikum var lögreglumaður sakfelldur í Hæstarétt fyrir að brjóta trúnað í starfi, en þó ekki gerð refsing. Hann hafði sagt vini sínum að 13 ára drengur hafi lamið hann í starfi og nafngreindi drenginn. Þetta var svo mikið bort á trúnaði að lögreglumaðurinn var dreginn fyrir tvö dómstig. Aðdragandinn að þessum dómi var á annað ár. Fyrst var lögrelumaðurinn handtekinn í sumarbústað og settur í gæsluvarðhald ásamt tveimur öðrum. Síðan var honum vísað úr vinnunni. En áður en málið kom fyrir héraðsdóm var það svona að mestu fellt niður en haldið áfram með trúnaðarbrotið.

Á vormánuðum árið 2015 fengum við frengir af alvarlegu fjárkúgunarmáli. Sérsveit lögreglunnar var með stóraðgerð í Hafnarfirði til að ná þessum fjárkúgurum. Í ljós koma að þetta var barnaleg tilraun tveggja kvenna í tilvistarkreppu til að kúga fé út úr forsætisráðherra. Tilraunin var svo barnslega kjánaleg og einföld að það sætir undrun að málið skuli ennþá vera í rannsókn átta mánuðum síðar.

Það er varla hægt að minnast ógrátandi á hjúkrunarkonuna sem var ákærð fyrir manndráp af gáleysi. Það mál var næstum þrjú ár í rannsókn. En miðað við önnur mál er það óskiljanlegt að Ríkissaksóknari hafi ekki áfrýjað því til Hæstaréttar.

En það eru ekki öll mál sem enda fyrir dómstólum en samt dragast þau á langinn jafnvel þó að brotin séu tekin upp á mynband sem ætti að flýta málsmeðferð.

Eftirminnilegt er mál 101 leikskólans. Þar fóru unglingsstúlkur sem unnu á leikskólanum af stað með mál sem varð að miklum fjölmiðlafarsa. Þær náð myndbandi af starfsmanni leikskólans sem beitti barn ofbeldi að þeirra áliti. Samstundis var farið af stað með miklum látum gegn leikskólanum og að endingu varð eigandi skólans gjaldþrota. En eftir nokkra mánuði kom niðurstaða frá Ríkissóknara um það væri ekki líklegt til sakfellingar. Dangl í bossann á barni væri ekki refsivert. En svona til að sýna fram á að þetta hafi verið ómaksins virði var þessu máli vísað áfram til Ríkisskattsjórna og ekkert hefur heyrst af því síðan.

Það væri hægt að nefna fjölda annarra mála sem dragast úr hömlu, en hér verður látið staðar numið.

Það undarlega er að svona sleifarlag í málmeðferð verði ekki til þess að almenningur rís upp og mótmælir þessum vinnubrögðum. Það er frekar að fólk fagni þegar ráðist er gegn fyrirtækjum og einstaklingum þar sem svo virðist sem meðhófsregla stjórnsýslulaga sé ekki til. Öllum virðist vera sama um tíma fólks og fjármuni sem fara í þennan tilgangslausa málarekstur. Bara í þessum örfáu málum hefur verið varið milljörðum af skattfé landsmanna. Á sama tíma kvarta þessar stofnanir undan fjárskorti og gríðarlegu álagi.

Væri það ekki verðugt viðfangsefni fyrir stjórnvöld að leggja það fyrir embættismenn að vera ekki að halda úti málareksti í málum þar sem mikill vafi leikur á að brot hafi verið framið eða þá eðli brotsins séu háð það miklu mati að erfiðlega gengur að koma málum í ákæruferli.

Getur verið að þessi vinnubrögð líðist af því að Umboðsmaður Alþingis á afar erfitt með að sinna skyldu sinn sem er að verja fyrirtæki og almenning fyrir ofríki stjórnvalda. En það er grundvallarregla að opinbert stjórnvald þarf að vanda sig og virða meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og Umborðsmaður Alþingis á að sjá til þess að það sé gert.


Nettröllin

Það er hópur fólks sem skrifar mikið af athugasemdum við flestar fréttir á netinu, þ.e.a.s. ef það er gefinn kostur á að skrifa athugasemdir og er það kalla kommentakerfi. Virkust kommentakerfin sem ég fylgist með eru á Eyjunni, Vísi og DV. Margar athugasemdir eru málefnalegar, fyndnar en ansi margar eru skrifaðar af fólki sem líður eitthvað illa og kemur vanlíðan, illsku eða heimsku sinni þarna á framfæri.

Það er tjáningarfrelsi í landinu og kemur það fram í því að allir sem eru nettengdir geta skrifað hvað sem er á þessa miðla. Eins eru aðilar á Facebook sem skrifa nánast endalaus pistla sem bera svipuð einkenni og athugasemdir á kommentakerfunum. Þeir sem hafa hæst og láta verst hafa fengið í sameiningu ýmsar nafngiftir en það sem mér finnst mest við hæfi er Nettröll.

Það eru ýmiss mál sem vekja sérstakan áhuga hjá Nettröllunum. Þeim er flestum illa við forsetann, forsætisráðherrann og fjármálráðherrann og síðan eru það auðvitað hrunmálin sem og sérstaklega umfjöllun um Kaupþingsmenn sem vekja þau upp.

Hver eru þessi nettröll?

Þau sem verst láta skiptast í ca fjóra flokka.

Í fyrsta lagi eru aðilar sem ekki þora að koma fram undir eigin nafni, en skreyta sig á ýmsan hátt með nafnbótum og skólum sem hafa enga stoð í raunveruleikanum.

Í öðru lagi eru það gamlingjar og öryrkjar sem urðu að eigin áliti hetjur í Búsáhaldabyltingunn. Það er gjarna fólk sem er fætt rétt eftir árið 1940 og finnst að vera grátt leikið.

Í þriðja lagi eru það Íslendingar erlendis með mikla heimþrá en hafa einstakan vilja til að úthúða öllu sem íslenskt er.

Í fjórða lagi er það bara almennir fávitar.

Sameigilegt með þessu fólki er að það er einnig gjart á að hringa í símatíma útvarpsstöðvanna til að koma visku sinni á framfæri. Þessi Nettröll er öll hægt að umbera, gamlingjar, öryrkjar og almennir fávitar sem ekkert hafa annað að gera en ausa eymd sinni og illsku yfir alþjóð.

Öllu verri er þó hópurinn sem einbeitir sér að útlengingahatri og er sérstaklega uppsigað við múslima. Skrif þessa hóps eru alveg einstaklega leiðinleg en þó er furðu auðvelt að komast hjá því að fylgjast með þeim. En þó eru einstaka aðilar í þessum hópi málefnalegir og þarft að rödd þeirra heyrist.

En þá er ótalinn pólitíski armur Nettröllanna. Þau er dannaðri í sinni framkomu og hafa mörg hver sína heimsíðu þaðan sem þau varpa greinum sínum yfir á þúsundir vina sinna á Facebook og verða mjög sýnileg. Þetta er góða fólkið, gutmensch. Góða fólkið hefur fyrir löngu skilgreint hvernig þjóðfélagið á að vera, hverjir eru þeim þóknanlegir og hverjir ekki. Það er alveg sama hvað gerist maður veit alveg afstöðu þess sem er svo örugg að það er nánast eins og vel forrituð tölva.

 


Ég er konungur Ísraels, leiðtogi gyðinga.

Það er með ólíkindum hvað maður getur dreymt mikla vitleysu.

Í nótt dreymdi mig að ég var niðri í bæ og hitti þar Jóhannes Nordal og Jón Sigurðsson fyrrverandi Þjóðhagstofustjóra og gef mig á tal við þá. Þeir byrja að ræða um að ríkisstjórnin ætli að auka kaupmátt ungs fólks um 100% og úr verður að þeir biðja mig um að kíkja á ritgerð eftir Benjamín H. J. Eiríksson og meta hvort að þetta sé mögulegt. Þeir rétta mér síðan geitarskinn sem Benjamín hafði skrifað ritgerð sína á. Þeir kvöddu mig með því að þetta væri ómetanleg þjóðargersemi og ég yrða að passa upp á skinnið.

Síðan held ég á braut og ekki líður á löngu áður en missi skinnið í drullupoll og þarna hefst martöðin fyrir alvöru. Við þetta verður ritgerðin bara að einni klessu á geitarskinninu nema það hvað efst á skinninu stendur „Ég er konungur Ísraels, leiðtogi gyðinga“. Þarna er ég svo sannarlega komin í vond mál, en sem betur fer vakna ég fljótlega.

En hvað veldur því að maður dreymir svona vitleysu, ég sem svaf svona ljómandi vel. En oftast man ég ekki það sem mig dreymir þó að það komi nú fyrir. Jón Sig þekkti ég ágætlega og ber mikla virðingu fyrir honum en því miður var hann einn af þeim sem settur var til hliðar í hruninu, illu heilli. Hann hefði getað gefið vinstri stjórninni sem við tók eftir hrun mörg góð ráð.

Jóhannes Nordal fyrrverandi Seðlabankastjóri kemur ætíð upp í hugann þegar ég sé innanríkisráðherra Ólöfu Nordal sem er dóttir hann og er afskaplega lík honum.

Benjamín kemur ætíð upp í hugann þegar ég sé Bryndísi Schram, en hún tók ógleymanlegt viðtal við hann sem var sýnt í sjónvarpinu þar sem hann sýndi hversu góður hagfræðingur hann var og síðan komu óskiljanlegar yfirlýsingar inn á milli að hann væri konungur Ísrael leiðtogi gyðinga.

Það er mér síðan alveg hulin ráðgát hvernig þessir aðilar fléttast inn í drauma mína og enda sem martröð þar sem ég missi þjóðargersemi ofan í drullupoll. En er þetta ekki í líkingu við annað? Á hverjum degi erum við að upplifa hverja dómsdagsvitleysuna á fætur annarri. Og þessi draumur eða martröð er ekkert verri en margt sem við upplifum þessi misserin.

 


Verkfallsvopninu er ekki beitt nema í nauðvörn.

Ég þekki nokkra aðila sem eru í BHM. Þetta eru kallar á svipuðum aldri og ég, að verða sextugir og margfaldir afar. Stærstu málin sem þeir eru að glíma við er það hvenær þeir eiga að minnka við sig húsnæðið. Selja einbýlishúsið og fara í góða blokkaríbúð. Það er ekki hægt að gera það alveg strax. Þó að krakkaskattarnir séu farnir að heiman, gengur búskapurinn hjá þeim misjafnlega og koma heim með reglulegu millibili, en það er bara eins og gengur, en þeir vilja vera til að og aðstoða börnin í blíðu og stríðu.

Þeir hafa flestir haldið sig við sömu konurnar, þó að einn og einn hafi tekið smá hliðarhopp þegar aldur og útlit leyfði. Ef þeir eru ekki búnir að missa hárið ennþá er það að mestu að verða grátt, nema hjá þeim sem lita það reglulega. Flestir hafa þeir náð því að verða helgaralkar nema þeir sem voru svo óheppnir að þurfa að fara í meðferð eða áttu konur sem létu þá ekki komast upp með þann ósóma að verða eins tengdafeður þeirra.

Þeir hafa unnið ábyrgðamikil störf hjá Ríkinu frá því þeir luku námi í viðskiptafræði, lögfræði og verkfræði hérna í kringum 1980-1985. Sumir fóru í framhaldsnám í virta skóla í Danmörku, en þeir eru löngu búnir að greiða námslánin. Þó að þeir hafi ekki allir náð að verða deildarstjórar bera þeir allir titla, fulltrúar, sérfræðingar og eitthvað í þá áttina.

Afkoman hjá þeim virðist vera ágæt, a.m.k hefur hún nægt flestum til að eignast nánast skuldlaust hús og svo er það einkenni á þeim að þeir eiga LandCruser eða sambærilegan jeppa sem er nánast skylda, en þó eru þeir að verða svolítið gamlir. Fáir hafa endurnýjað jeppann eftir árið 2008. Það sem er merkilegt er að þeir sem fóru í meðferð hafa það sýnu verr en hinir. Þeir virðast ekki hafa farið í meðferð fyrr en bæði konan og fjárhagurinn neyddi þá til þess.

Annað sem einkennir þessa vini mína er að þeir eiga flestir sumarbústað í Grímsnesinu, sem með tímanum hefur breyst í heilsársbústað. Þeir hafa lagt helgarvinnu sína í að gera bústaðinn fallegan og eins hafa þeir verið duglegir að rækta upp skóg í kringum bústaðinn. Að jafnaði hafa þessir vinir mínir meiri áhuga á að vera í bústaðnum en konurnar, því það er svo gott að vera í náttúrulegu umhverfi. En það er auk þess merkilegt hvað margar af eiginkonum þeirra eru grunnskólakennarar, nema verkfræðingarnir sem gjarnan eiga konur sem eru hjúkkur og það er eðlileg skýring á því.

Undanfarið hef ég heyrt þá kvarta yfir laununum. Ég hef spurt þá að því hvort að einn milla sé ekki alveg nóg greiðsla fyrir þessi mikilvægu störf. Svarið er einfalt. Það er ekkert hægt að miða við heildarlaun, það verður að miða við grunnlaunin. Það er alveg augljóst að menntun er ekki metin til launa. Það er ekkert tillit tekið til námslána og sttyttri starfsævi og svo framvegis. Það verður að laga grunnlaunin. Aðrar greiðslur eru yfirvinnugreiðslur, álagsgreiðsur, bifreiðastyrkir og ferðastyrkir og það er ósanngjarnt að ég sé að telja það með laununum þeirra.

Þeir vita ekki það sem ég veit. Til að sinna þeim störfum sem þeir sinna þarf ekki þá langskólamenntun sem þeir hafa. Það er bara leið ríkisins til að velja fólk, það eru alltaf setta upp kröfur um einhverja háskólamenntun. Í sumum tilvikum er æskilegt að þeir séu ágætir í ensku svo að þeir verði sér ekki til skammar á öllum þeim ráðstefnum sem þeir sækja og kunni að Googla.

En nú eru sumir félagar mínir komnir í verkfall og aðrir á leiðinni. Það er kominn tími til að menntun sé metin til launa. Til að safna kröftum áður en verkfallið hefst fyrir alvöru er ágætt að fara í sumarbústaðinn um helgina á Crusernum og taka nokkar kippur af bjór og rauðvín með.

Verkfallsvopninu er ekki beitt nema í nauðvörn.


Undarlegt réttarfar.

Stundum verður maður undrandi á vinnubrögðum lögreglunnar, saksóknurum og eftirlitsstofnunum. Á sömu stundu og talað er um fjárskort og yfirþyrmandi álag eru aðgerðir þessara stofnana alveg undarlegar, stundum vafasamar og siðlausar. Virðingaleysi gagnvart fyrirtækjum og fólki er mikið og sóun á tíma og fjármunum er stundum átakanlegt að sjá.

LÖKE-málið.

Fyrir nokkru síðan var ungur lögreglumaður borinn þungum sökum fyrir að fletta upp á málakerfi lögreglunnar, LÖKE og dreifa upplýsingum á Facebook. Á hann voru bornar þungar sakir og líf hans umtrunast. Hann og tveir aðrir eru handteknir og settir í gæsluvarðhald og í kjölfarið misst lögrelumaðurinn vinnuna og málið leit svo sannarlega illa út. Þegar að því koma að flytja málið fyrir dómstólum kom í ljós að það var byggt á slúðri og handabakavinnubrögðum lögreglunnar á Suðurnesjum með dyggri aðstoð Ríkissaksóknara. Örfáum dögum fyrir þinghald er málið nánast fellt niður og saksóknari tekur á sig málskostnað. Þrátt fyrir það er haldið áfram með málið út af einhverju undarlegu smáatriði. Héraðsdómur tók þetta og afgreiddi það snarlega með fullkominni sýknu fyrir unga lögreglumanninn. Það undarlega gerist er að Ríkissaksóknari áfrýjar þessu máli til Hæstaréttar.

Þetta er nánast fullkomið dæmi um algert virðingarleysi fyrir tíma og fjármunum annarra.

Hannesar Smárasonar málið.

Þegar athafnamaðurinn Hannes Smárason var orðinn forstjóri fyrir fyrirtæki sem er í eigu hans og Kára Stefánssonar tekur Sérstakur saksóknari sig til að ákærir hann fyrir meintan fjárdrátt sem átti að hafa gerst fyrir átta eða nýju árum síðan þegar millifærslur áttu að eiga sér stað í Luxumborg. Þetta mál hafði verið á allra vitorði nánast frá upphafi. En ákæruvaldið gat ekki einu sinni sýnt fram á að millifærslan hafi átt sér stað hvað þá meira. Það var engin vísbending um sök. Án neinna sannana í svona máli á ekki að fara fyrir dómstóla. Það undarlega gerist er að Ríkissaksóknari áfrýjar þessu máli til Hæstaréttar.

Þetta er nánast fullkomið dæmi um algert virðingarleysi fyrir tíma og fjármunum annarra.

Stóra vændiskaupamálið.

Lögrelan á Suðurnesjum fréttir af erlendri konu sem stundar vændi í bílskúr í Reykjavík. Til að fá hlerunarheimild á síma konunnar, er málið rannsakað sem mansalsmál þar sem refsiramminn þar er rýmri en í vændismálum. Lögreglan liggur svo í leyni á með viðskiptavinir konunnar streyma til hennar. Þegar lögreglan var búin á þennan hátt að leggja snöru fyrir rúmlega 60 karlmenn var ákveði að stoppa þessa starfsemi og niðurstaðan var að 40 karlmenn voru ákærðir fyrir að kaupa vændi og þeir dregnir fyrir héraðsdóm þar sem þeim var gert að greiða einhver hundruð þúsunda í sekt. Ég veit ekki hvort þeir séu í dag komnir með stimpilinn â€Å¾kynferðisafbrotamenn“. Ég efast stórlega um að svona vinnubrögð séu lögleg en að minnsta kosti eru þau siðlaus. Auðvitað á að stöðva svona starfsemi strax en það á ekki að veiða menn í gildru. Öllum að óvörum áfrýjaði Ríkissaksóknari ekki þessum málum til Hæstaréttar.

Þetta er nánast fullkomið dæmi um algert siðleysi.


Hvað þarf til að sefa reiði þjóðarinnar?

Efnahagsáfallið árið 2008 virðist hafa leyst úr læðingi ákveðinn öfl sem ráðast gegn einstaklingum og fyrirtækjum af fádæma hörku. Það er nánast sama hvert málið er, einstaklingar og fyrirtæki verða skotspónn ótal fjölmiðla og nettröllin ærast af minnsta tilefni. Opinberar stofnanir hafa síðan fylgt í kjölfarið.

 

Skýrsla RNA var það sem tendraði ófriðarbálið og fleiri skýrslur urðu meiri eldiviður á þetta ofsóknarbál. Sífelldir lekar Sérstaks Saksóknar, FME og slitastjórna á sönnum og ósönnum sögum í fjölmiðla var ekki til að draga úr þessu.

 

Landsdómur var kallaður saman til að rétta yfir Geir Haarde. Það hefði ekki getað gerst fyrir árið 2008 og gæti tæplega gerst í dag, Það var eitthvað hræðilegt sem gerist árið 2010. Það var eitthvað sem örvaði vinstrimenn til þessa óhæfuverks, allt var leyfilegt til að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Það er eitthvað svo óhuggulegt að hugsa til þess að á Íslandi hafi verið haldin pólitísk réttarhöld yfir einum manni sem auk þess er sértaklega hæfur og vandaður maður. Ég held að flestir sem að þessu stóðu séu ekki ánægðir með sína þátttöku í þessu skelfilega máli.

 

Þetta æði fór rólega af stað. Einhver sem kallaði sig „Skapofsi“ sletti málningu á heimili fólks sem tengdust bönkunum og virtist sem almenningur líkaði þetta athæfi ágætlega. Að lokum náðist í hann en ekki þótti ástæða til láta hann sæta ábyrgð, sem er nú frekar undarlegt.

 

Núna tæplega sjö árum eftir efnahagshrunið geta dómstólar ekki sinnt öllum þeim dómsmálum sem til þeirra er beint. Það er fjarri lagi að þetta séu allt hrunmál. Það er bara allt að verða snargalið, allt er túlkað sem saknæmt athæfi og öllum málum er stefnt fyrir dómstóla. Orðræðan er orðin þannig að það þykir ekkert að því að andstæðingar forsætisráðherra segja að hann sé andlega vanheill án þess að blikna að blána.

 

Síðan hefur þetta æði runnið á opinberar stofnanir sem ráðast með ótrúlegu offorsi á einstaklinga og fyrirtæki. Það er ekkert sem kemur á óvart lengur. Það eru nokkur svo ótrúleg mál sem hafa komið upp að ég verð sorgmætur yfir þeim tíma, orku og kostnaði sem menn sóa í málarekstur af öllum toga. Meðalhóf er ekki virt á nokkru sviði.

 

Einu sinni var til einkarekinn leikskóli og þar störfuð nokkrar konur sem hugsuðu um nokkra tugi barna yfir daginn og allt virtist ganga ágætlega. En einn dag ákveða unglingsstúlkur sem þar unnu að ákveða hvað væri skelfilegt ofbeldi og níðingsverk gagnvart börnum. Starfsfólki og eiganda leikskólans var úthúðað í fjölmiðlum sem einstakir barnaníðingar. Lögreglan rannsakaði málið og leikskólanum var lokað og síðan tekur Ríkissaksóknari sér langan tíma til að ákveða framhaldið. Eftir langan umhugsunarfrest Ríkissaksóknara kemur niðurstaðan. Myndbönd sem unglingsstúlkurnar opinberuðu sýndi ekki níðingsverk gegn börnum og málið er fellt niður. En eftir stendur eigandinn með gjaldþrota fyrirtæki.

 

Fyrir nokkrum misserum ákveður Sérstakur Saksóknari (SS) að ákæra landsþekktan mann sem er eldklár en nokkuð umdeildur fyrir meinta millifærslu á miklum fjármunum sem hann átti að hafa framkvæmt eða látið framkvæma 8 árum áður. En málið var svo vanbúið að SS gat ekki sýnt fram á að millifærslan hafi átt sér stað. Samt er lagt í þann kostnað að fara með málið fyrir dómstóla. Var það bara til að sefa reiði þjóðarinnar eða hvað? Héraðsdómur sýknar manninn í þessu máli þar sem sönnun skortir á að millifærslan hafi átt sér stað. Ekki getur héraðsdómur dæmt eftir sögusögnum. Síðan er vitleysan kórónuð með því að áfrýja til Hæstaréttar, eftir hverju á hann að dæma.

 

Lögreglumaður er kærður fyrir að fletta upp í málaskrá lögreglunnar (LÖKE) og grunaður um að segja frá á Facebook. Málið er litið alvarlegum augum af lögreglunni á Suðurnesjum og Ríkissaksóknara og það talið vera kynferðisafbrot. Þegar kemur að dómshaldi er málið nánast fellt niður þar sem ásakanir stóðust ekki skoðun, en málinu er þó fram haldið út af smávægilegu atriði og krafa um refsingu felld niður og saksóknari tekur á sig kostnað vegna málsvarnarlauna. Héraðsdómur er fljótur að sýkna lögreglumanninn enda saklaus borinn þungum sökum. Það undarlega gerist síðan í framhaldinu er að Ríkissaksóknari áfrýjar málinu til Hæstaréttar. Það er alveg stórundarleg ákvörðun og vekur upp spurningu um hvaða annarlegu hvatir liggja þar að baki.

 

Lögreglan kemst á snoðir um það að erlend kona stundar vændi í Reykjavík. Í stað þess að stöðva starfsemina byrjar lögreglan að hlera símann hennar og byrjar og veiðir vændiskaupendur í gildru. Þegar lögreglan er búin að ná 64 mönnum í netið þótti ástæða til að stöðva starfsemina. Niðurstaðan varð sú að ákæra 40 aðila fyrir vændiskaup og verða því stimplaðir kynferðisafbrotamenn. Er svona „veiðferð“ lögreglunnar lögleg?

 

Þessi mál sem ég er búin að rekja hér eru ekki stærstu dómsmálin sem við höfum orðið vitni að á undanförunum árum. En þau sýna öll að meðhóf er ekki virt og ekki er tekin afstaða til öfgafullra ásakanna fyrr en eftir margra mánaða eða margra ára rannsóknir. Það er eins og að það sé ásetningur að valda fólki skaða hvort sem það er sekt eða saklaust. Það er eins og „réttarríkið“ sé hætt að virka. Tilgangurinn helgar meðalið.

 

Hvað er það sem veldur því að „réttarríkið“ er hætt að virka?

 

Það sem hefur gerst frá hruni er að það var skipaður nýr Ríkissaksóknari sem tekur enga ákvörðun fyrr en eftir margra mánaða yfirlegu yfir málum og virðist ekki vísa neinu máli frá, heldur ákeður að reka nánast öll mál fyrir dómstólum og öllum málum er áfýjað til hæstaréttar. Það virðist einnig hafa orðið stefnubreyting eins og sést af máli hjúkrunarkonunnar sem gerði mistök í starfi og er ákærð fyrir manndráp af gáleysi. Niðurstaðan er sú að dómstólar eru að koðna undan fjölda mála og það sama á við embætti Ríkissaksóknara.

 

Embætti Sérstaks Saksóknara er sett á stofn og fær mikla fjármuni og mannafla. Farið er út í gríðarlega umfangsmiklar rannsóknir og fjölda fólks haldið sem sakborningum árum saman. Eftir umfangsmiklar rannsóknir á embættið erfitt með að draga í land og heldur áfram með vonlaus mál. Sérstakur Saksóknari var við það að missa alla tiltrú samfélagsins, en við sakfellingu í Al Thani þar sem sumum þótti dómur Hæstaréttar vera vafasamur virðist SS hafa fengið nýtt líf auk þess sem hann er eins konar aflvél í að „sefa reiði þjóðarinnar“.

 

En það er ein stofnun sem oft gleymist þegar rætt er um aðför að fyrirtækjum. Það er Samkeppniseftirlitið (SE). SE hefur vald til að rannsaka og ákvarða einhliða sektir vegna meintra samkeppnislagabrota. Fyrirtæki sem lenda í hakkavélinni hjá SE, þurfa að verjast í allt að 8 ára ef þau telja sig hafa verð órétti beitt. Vinnubröð hjá SE eru með hraða snigilsins og úrskurðir oft harla vafasamir.

 

Það er eflaust öllum í fersku minni hvernig SE náði á örskömmum tíma að eyða öllu verðskyni almennings á kjötvörum. Áratuga ferli við að verðmerka kjötvöru var með einni ákvörðun SE dæmt samkeppnislagabrot sektir lagðar á Haga og kjötframleiðslufyrirtæki svo skipti hundruðum milljóna.

 

Fyrirtækið Vífilfell þurfti að berjast í mörg ár til að losna undan gríðaháum sektargreiðslum SE og þurfti það að fara alla leið í Hæstarétt.

 

SE lagði háa sekt upplýsingaveituna JÁ, en var rekið til baka af Áfrýjunarnefnd samkeppnismála, vegna handabakavinnubragða.

 

Sama á við þegar SE ætlaði að gera atlögu að MS sem er heimilt að starfa í skjóli ákveðinna laga sem eru talin henta neytendum best. En á sama hátt og með JÁ var SE rekið til baka með skömm.

 

SE gerði atlögu að Eimskip og Samskip og hefur þau fyrirtæki til rannsóknar. SE kærði til nokkra starfsmenn þessara fyrirtækja til Sérstaks Saksóknara en eitthvað virðist hann tregur til að falla aftur í gildru SE þar sem hann var þegar með vonlausan málarekstur gegn starfsmönnum BYKO og Húsasmiðjunnar í málaferlum og öllum mátti ljóst vera að það var vafasöm ákæra á ferð. En í stað þess að una þessu lak SE rannsóknargögnum í Kastljós sem að sjálfsögðu gerði starfsmenn beggja fyrirtækja að glæpamönnum. Það er ekki nema von að stjórnarformaður Eimskips varpaði fram þeirri spurningu á síðasta aðalfundi fyrirtækisins hvort Samkeppniseftirlitið væri hafið yfir lög og rétt.

 

Eitt vafasamasta verkefni SE síðustu ára var að saka fyrirtækin BYKO og Húsasmiðjuna og starfsmenn þessara fyrirtækja um verðsamráð. Með vafasömum ásökunum starfsmanna og eiganda Múrbúðarinnar fékkst heimild til símhlerana hjá þessum fyrirtækjum sem síðar leiddu til húsleitar og síðan handtöku á tugum starfsmanna. Nú hafa allir þessir starfsmenn verið sýknaðir fyrir utan einn sem var dæmur í skilorðsbundið fangelsi í ein mánuð, en þó fyrir aðrar sakir en lagt var af stað með. Í dómsorðum segir: „Benda öll þessi skilaboð til þess að hið gagnstæða hafi verið, mikil og hörð samkeppni, en ekki verðsamráð“.

 

Hvorki Sérstakur Saksóknari eða Samkeppiseftirlit sjá ástæðu biðjast afsökunar á gerðum sínum. Það er sennilega rétt að báðar þessar stofnanir eru hafnar yfir lög og rétt. Halda bara sínu striki eins lengi og þeim þóknast án þess að virða neinar réttarreglur um hófsemi og að stefna ekki mönnum fyrir dóm nema líklegt sé að þeir verði sakfelldir.

 

Einu sinni var sagt af öðru tilefni en á vel við í þessu máli eins og mörgum öðrum og mættu allar þær stofnanir sem ég nefni hér að ofan taka þetta til sín.

 

„You've done enough. Have you no sense of decency, sir? At long last, have you left no sense of decency?“

 

Jón Þorbjörnsson


Ég er orið svolítið þreyttur á þessu krepputali.

Í okkar ágæta samfélagi er engin óskapleg kreppa. Tugþúsundir Íslendinga fara í frí til sólarlanda, Egill sjálfur fer á eyju í Grikklandi og dvelur þar í nokkrar vikur. Það er erfitt að fá far til útlanda þar sem flestar vélar eru fullbókaðar. Ef okkur vantar eitthvað förum við út í búð og kaupum það. Ég get ekki séð að það sé nokkur skortur á peningum hjá fólki. Göturnar eru fullar af bílum. Það er uppselt á tónleika hjá afdönkuðum tónlistarmönnum. Fjöldi fólks veifar IPad tölvum og IPhone símum, allir vel tengir og hafa nægan tíma til að hanga á netinu. Hundruðir virðast hafa það að atvinnu að skrifa misgáfulegar greinar fyrir veffjölmiðla  og svo framvegis.

 

Við höfum það ekki eins gott og árin 2004-2007 enda var það Stóra-Bóla, en við höfum það ágætt. Atvinnuleysi er svipað og í öðrum löndum en samt eru til fyrirtæki sem fá ekki fólk til starfa.

 

En við glímum við eitt sérstakt vandamál. Stórnvöld sýna einstaka neikvæðni. Stjórnvöld herja á atvinnuvegi landsmanna og virðast vilja brjóta niður atvinnulífið, a.m.k. vilja stjórnvöld ekki aðstoða atvinnuvegina sem er nú svolítið sérstakt. En atvinnulífið reynir að verjast þessari niðurrifsstefnu og reynir að standa í lappirnar.  Stjórnvöld sjá ekki að með því að ofurskattlegja samfélagið eyða þau smá saman viljanum til vinna og vilja fyrirtækjanna til að framkvæmda. Þetta er heimatilbúið vandamál sem viðhaldið er með mítunni að hér sé svo ótrúleg kreppa og síðan þeirri fáfræði að telja að það sé hægt að leysa öll vandamál með háum sköttum og háum vöxtum.

 

Hvar er þessi óskaplega kreppa og hrunið samfélag sem fólki verður tíðrætt um í ummælum sínum? Flestir sem ég þekki hafa það ágætt.  Auðvitað er nokkur hópur af fólki sem hefur það skítt og það hefur alltaf verið þannig og mun alltaf verða þannig. Eflaust er þessi hópur eitthvað stærri en hann var í Stóru-Bólu. Við getum ekki endalaust rætt um vanda þeirra sem keyptu fasteingir á toppi Stóru-Bólu.

 

Stjórnvöld sérstaklega forsætisráðherra verða að koma fram og gefa landmönnum jákvæði og von um að við séum á leiðinni að bæta hag okkar  í framtíðinni. Til þess þurfum við ef til vill að fara nokkur skref til baka um sinn á einhverjum sviðum og fljótlega getum við tekið skref fram á við aftur. En okkur fer ekkert fram ef við ætlum að viðhalda hér umræðusamfélagi þar sem eilíft er þrasað um fortíðina og haldið neikvæðu viðmóti að þjóðinni. 

 

Síðan er það okkur ekki til framdráttar þegar málsmetandi menn í samfélaginu sjá andskotann í því að við eigum gott samstarf við Evrópuþjóðir og helstu vinaþjóðir.


Skemmtilegur veiðitúr sem hafði hræðilegar afleiðingar.

Ég fór í í veiðitúr með Veiðiklúbbnum Áka eitt haustið. Veiðiferðin var skemmtileg að venju,   nóg var af mat og drykk í 3 daga. Við vorum að veiðum frá 8 að morgni fram til 9 að kveldi. Síðan hefst það skemmtilegasta, en það er að matreiða og bæta aðeins við áfengisneyslu dagsins og hefja síðan venjulegt þras  við veiðfélagana. 

 

Allir veiðitúrar taka enda og við höldum heim á leið.  Daginn eftir að ég kom heim varð mér alveg hræðilega illt í maganum eða efri hluta magans. Verkurinn ágerðist og að lokum varð hann óbærilegur og ég lagist á gólfið og emjaði. 

 

Ég reyndi að útskýra fyrir Brynju að sennilega væri ég með vægt hjartaáfall og því réttast að ég færi upp á Slysó.  Brynja brást rólega við og taldi að ég væri eins og aðrir karlar með lágan sársaukastuðul  og svo bætti hún við. „Jón þú veist ekki hvað er að eignast 18 merku barn, ég held að þá myndir þú emja.“ 

 

Það var ljóst að ég fengi engan stuðning frá Brynju svo á leitaði til Þorbjörns og spurði hann hvort hann gæti skutlað mér upp á Slysó.  Hann virtist hafa meðönkun með föður sínum og keyrði mig upp á Slysó.

 

Þeir sem hafa komið á Slysó seint að kvöldi vita að þar er misjafn sauður, sumir drukknir með bardagaáverka. Þar sem móttökuritarinn sá hvað ég bar mig aumlega komst ég fljótlega undir manna hendur.

 

Fyrst kom stúlka sem ræddi við mig um ástandið en kallaði fljótlega á aðra konu sem ég held að hafi verið læknir og sennilega  eitthvað reyndari.  Hún þreifaði eitthvað á kviðnum á mér og svo merkilega vildi til að verkurinn byrjaði að linast og þá byrjaði hún að yfirheyra mig.

 

Læknirinn:  „Hefur þú verið að borða eitthvað sérstakt undanfarið eða verið að gera eitthvað sérstakt sem gæti valdið þessu.“

 

Ég:  „Nei, nei, ég var bara í veiðitúr um helgina og svo fór ég í vinnu í dag og fann ekkert óeðlilegt.

 

Læknirinn horfi ásakandi á mig og spyr: „Þið hafið þá borðað eins og svín og verið fullir allan tímann.“

 

Ég kunni ekki við að játa, en svarði:  „Ég borðaði ekkert svakalega mikið og drakk ekkert rosalega.“

 

Nú var verkurinn farinn að minnka verulega og hún leita á mig hvössum augum:.

 

Læknirinn:  „Það er alvanalegt að hingað komi menn eftir veiðitúra með svipuð einkenni og þú, þrátt fyrir að hafa ekki  borðað neitt  svakalega né drukkið neitt rosalega mikið.“

 

Ég skömmustulegur:  „Það er svo merkilegt að verkurinn er nánast horfinn.“

 

Síðan yfirgef ég Slysó hálf skömmustulegur og Þorbjörn ánægður að heimta föður sinn úr helju og við förum heim.  Þegar heim er komið er Brynja steinsofandi. Ég hafð búist við að hún sæti í sófanum og biði milli vonar og ótta að heyra af örlögum mínum. Nei hún var steinsofandi inni í rúmi.  Ég tóka aðeins í tána á henni þannig að hún rumskaði.

 

Ég: „Brynja hafðir þú engar áhyggjur af mér, ég gæti þess vegna verið dáinn úr hjartaáfalli og þú ert steinsofandi. „

 

Brynja umlar hálfsofandi: „Ef það hefði verið eitthvað alvarlegt að þér Jón minn, þá hefði verið hringt í mig.“  Með það sama var hún sofnuð aftur.  Ég stóð áfram við rúmið og horfði á Brynju, en mér fannst ég vera hálf munaðarlaus.


Úlfurinn eða Byggingavörur Dúdda.

Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra gerði húsleit hjá Byggingavörum Dúdda vegna gruns um markaðsmisnotkun og stórfeld samkeppnislagabrot. Eini starfsmaður fyrirtækisins var handtekinn og því var Byggingavörum Dúdda lokað í gær.

Er þetta ekki kostulegt, hver hefur heyrt minnst á Byggingavörur Dúdda eða Byggingavöruverslunina Úlfinn? 


Ég er svo hræðilega veikur

Í gærmorgun fór  ég í leikfimi og svo aftur klukkan hálffimm og svo spilaði ég skvass í einn og hálfan tíma. En ég var eitthvað domm. Nasirnar stíflaðar og enginn kraftur í kallinum. Báðar nasir klossstíflaðar.

Ég velti því fyrir mér hvort ég væri kominn með hita. Nei fullorðnir karlmenn verða ekki veikir þrátt fyrir að þeir fái kvef. Átti ég að fá mér Panódíl og Neseril eða eitthvað til að lækna þetta?  Nei ég hef ekki orðið veikur í áratug og fer ekki  að éta einhver kerlingalyf til að losna við kvef. Nei líkaminn verður að vinna á þess.

 Djöf.. var ég slappur  þegar ég vaknaði í morgun. Hálsinn eins og sandpappír og tennurnar eins og oddhvassir demantar sem skera tunguna við minnstu snertingu. Ætli þetta sé helv.. svínaflensan, er hún ekki komin aftur? Hvað kvikindi hefur smitað mig af svínaflensunni? Ég skal komast að þvi hver smitaði mig og hefna mín rækilega.  

Ég drattaðist fram og spurði fjölskylduna hvort það væri til pensilín eða eitthvað til þess að hjálpa mér að lifa af daginn. Ég fékk engin svör. "Þú ferð ekki í leikfimi í dag" heyrðist í konunni. Ég var líka kominn með eyrnarverk eða eyrnarbólgu. "Er örugglega ekki til neitt pensilín?". Auðvitað er ekki til neitt svoleiðist, en það er til Panódíl og Íbúfen og svo auðvitað Heilsutvenna eða þrenna  og lýsi. Ég hefði átt að vera duglegri að taka lýsi, lýsi með sítrónu sem er ógeðsdrykkur af verstu sort. 

Svo fór ég í leikfimi. Einhver verður að stjórna feitu fimleikadrengjunum. Þeir hreyfa sig ekki nema ég segi þeim að gera það. Síðan fór ég í vinnuna og horfði á skjáinni í fimm mínútur og þá tók ég þá ákvörðun um að vera veikur. Fullorðinn maður veikur heima af því að hann er kvefaður. Þetta er hrikalega niðurlægjandi.  Ég sem er búinn að tala svo illa um þessa aumingja sem eru kvefaðir heima og hef verið sannfærður um að þeir eru bara að nota umsamda veikindafrídaga sem eru tveir í mánuði. 

Í hádeginu kom eiginkonan heim með kók handa veika stráknum sínum. Það hefur myndast sú hefð í gegnum tíðina að þeir sem eru veikir heima  fái kók, eins og það sé einhver mixtúra. Svo sagði hún. "Jón það var svo gaman þegar þú vart farinn í morgun. Matti lék þig svo vel. Hann svo staulaðist um og sagði "Er til penisilín, er til penisilín, ég er svo slappur". 

Það er gott að einhver sér björtu hliðarnar á veikindum mínum. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband