Færsluflokkur: Bloggar

Eru hörmungar Íslendinga ekki stórlega ýktar?

Einar Lárusson brottfluttur Íslendingur, nýbúi í Svíþjóð hefur ekkert annað að gera en að senda alþingismönnum bréf, sem innifelur þau skilaboð að hann nenni ekki lengur að borga af einhverri íbúð, en er  þó ennþá í skilum, eftir því sem hann segir sjálfur.  Og svo að allt er ömurlegt á Íslandi en gott í Svíþjóð. Hann er greinilega ekki búinn að vera  þar lengi.

Það er einkennileg árátta hjá sumu fólki sem telur að alþingismönnum beri einhver skylda til að svara hvaða fávita sem er, sem sendir eitthvað bull frá sér. Fjórir þingmenn hafa þó svarað þessum nýbúa í Svíþjóð. Það eru auðvitað Margrét gáfnaljós og Birgitta samviska alheimsins sem eru svo gríðarlega ánægðar með hans framtak. Síðan eru það Björn Valur og Þráinn leikstjóri sem svara honum í föðurlegum tón að það sé ekki allt svona ömurlegt á Íslandi.

Ég er mest hissa á Þór Saari skuli ekki vera svara á sömu nótum og flokkssystur hans.

Það sem undrar mig mest. Hvað er það sem verður til þess að Pressan haldi þessum bréfaskrifum hans á lofti.  Eru skrif um eymdina á Íslandi, aumingjaskap og getuleysi Íslendinga ekki komin aðeins fram úr hófi. Er ástandið á Íslandi svona hræðilegt. Ég sé ekki betur en að flestir sem ég þekki til hafi það ágætt.   

Ég veit ekki hvort ég lifi í vernduðu umhverfi, en ég verð ekki var við alla þessa ömurlegu stöðu heimilanna sem stöðugt er hamrað á í fjölmiðlum. Flesti hafa nóg að eta. Fólk fer ennþá í frí til útlanda og ferðast mikið innanlands. Það á ennþá dótið sem það keypti í brjálæðinu árin fyrir hrun, bíla, tjaldvagna, fjórhjól, sumarbústaði og að síðustu húsin sín. Það er fullbókað í allar veiðiár á landinu þar sem einhver fiskur er.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir að einhverjir séu með verulega timburmenn eftir allt neyslufylliríið og sumir munu ekki komast á fætur aftur, sérstaklega þeir sem eru með mikla timburmenn og hafa einnig misst vinnuna.

Eru hörmungar Íslendinga ekki stórlega ýktar?


Alþjóðlegar handtökuskipanir

Íslenskur pörurpiltur var handtekinn á flugvelli í Venuzuela. Ef eitthvað er að marka umræðu í fjölmiðlum þá var pilturinn á leiðinni heim í samráði við lögmann sinn og lögreglu.

Voru það mistök hjá lögregluyfirvölum að taka hann ekki af skrá hjá Interpol til þess að greiða för hans heim eða er þetta svipað "Show" og þegar Sigurður Einsarsson var eftirlýsur af Interpol. Fyrir vikið þá seinkar heimkomu pörupiltsins og eflaust þarf að semja um heimkomu hans.

Þetta er nú sennilega maður sem á að fá makleg málagjöld en það er óþolandi þegar lögreglan á Íslandi er með svo "Show". Telur lögreglan að hún sýnist eithvað öflugri í augum almennings með því að vera með svona  uppistand.   

Getur það verið að þetta svikamál, þar sem opinberast að yfirvöld Skattamála eru ekki með neinar fyrirbyggjandi varnir til að koma í veg fyrir svona einfalt svindl, sé svo flókið að það þurfi að halda sakborningum á einangrun í þrjár vikur.  Ég get ekki ímyndað mér að svo sé.


Ofurálitsgjafarnir

Eyjan.is er nokkuð merkileg síða.  Þar eru sagðar fréttir og svo er þar Silfur Egils og síðan fjöldi aðila sem semur greinar og settur þær inn á bloggsíðuna sína og eru þá kallaðir Eyjubloggarar.  Fuglahvíslið á AMX á marga óvini og eru þeir margir Eyjubloggarar. Sérstaklega er Fuglahvíslinu í nöp við Egil sjálfan enda liggur hann ágætlega við höggi.

Það merkilega við Eyjuna er það sem ég kalla innskot. Við allar greinar á Eyjunni er hægt að senda inn athugasemdir, þar sem höfundar koma oftast fram undir dulnefni en þó eru undantekningar þar á. Ágætlega kunnir menn senda þarna inn innskot, sumt af því er bísna gott en annað verulega dapurtlegt.

Í lok maí var heimasíða Eyjunnar lagfærð og meðal annars er haldið utanum innskot frá hverjum og einum og hægt er að sjá talningu á þeim. Nú eru liðnir ca 130 dagar síðan þessi talning hófst. Nokkir ofurvirkir aðilar hafa sent inn um 1400 innskot. Það þýðir að þeir eru að senda inn að jafnaði tæplega 11 innskot hvern einasta dag. Þetta hlýtur að vera fýkn. Það er alltaf áberandi þegar þeir detta úr í ákveðinn tíma. Af einhverjum ástæðum grunar mig að þá hafi þeir verið sendir inn á stofnun til hvíldar.

Það getur verið að þessi sömu aðilar séu einnig að pönkast á öðrum síðum en Eyjunni. En hvað sem þvi líður þá finnst þeim þeir hafa fundið sinn vettvang hamast eins og rjúpan við staurinn.

 


Fasteignabóla

Einu sinni var það svo að ungt fólk byrjaði á að kaupa ódýra íbúð, gjarnan í kjallara.

Þegar það hafði myndast nokkur eign þá var hugað að því að komast í betra húsnæði og jafnvel einu herbergi bætt við. Það var látið duga í 5 til 10 ár og fjölskyldan stækkað. Þá var jafnvel ráðist í að byggja raðhús í félagi með vinum eða kunningjum eða þá einbýlishús og flutt inn áður en allt var tilbúið. Síðan tók jafnvel 10 ár að fullklára lóð og húsnæði.

 

 

Síðan breytist allt, ungt fólk með nánast enga eign fær 90 til 100% lán til að kaupa íbúð eða hús fyrir 20 - 30 milljónir. Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að þetta gæti gengið. Og hvernig datt þessu fólki í hug að skuldsetja sig svona rosalega, jafnvel þó það hafi staðið til boða? Síðan voru kanski tveir bílar á heimilinu einnig að fullu fjármagnaðir með lánum.

   

Nú situr þetta ágæta fólk upp með fasteign sem er svona 60% af virði lánanna, tvo bíla sem lánastofnanir eru að hirða af þeim.

  

Kemur niðurstaðan eitthvað á óvart. Er þetta ekki eignabólan sem var þanin þar til hún sprakk.

Er þetta ekki nærri lagi að vera lýsing á aðstæðum þess fólks sem verst er statt í dag. Mér finnst leitt að þetta fólk sé að missa húsnæðið sem það fékk að láni og einnig bílana. En ég skil af hverju þetta sprakk framan í fólkið. Þetta gat ekki endað á annan hátt, þurfti ekkert hrun til.

 

 

Er eitthvað hægt að gera til að bjarga þessu fólki og sama tíma aðrir þurfa að spjara sig á eigin spýtur. Ég sé ekki hverning á að gera það.

 

 


Alkemistarnir hans Tryggva Þórs, álhausar og kálhausar.

Kafli úr grein sem Tryggi Þór Herbertsson bitri 20. september 2010. Mér þykir þessi kafli alger snilld og birti hann því án þess að spyrja kóng að prest og þaðan af síður Tryggva sjálfan.

  

Tryggvi bætti um betur í Kastljósi og sagði að Andri Snær talaði eins og „Prestur í költi.“

  

Alkemistar

Á undanförnum árum hefur blómstrað nýr iðnaður í heiminum. Þessi iðnaður gengur út á að vera á móti flestu sem elítan í bisness og stjórnmálum - borgarastéttin - tekur sér fyrir hendur. Þar ægir saman alls konar hugmyndum sem flestar standa þó á grunni and-kapitalisma og and-alþjóðavæðingar. Sennilega er frægastur þessara ný-iðnaðarmanna á alþjóðavísu Michael Moore og innanlands títtnefndur Andri Snær Magnason. Andri Snær bætir reyndar um betur og hellir einhverskonar vist-femínisma í súpuna. Málflutningurinn er póstmódernískur - allt gengur ef góð saga er sögð.
   
Drengirnir sem áður voru hetjur framtíðarinnar í óklipptu draumalandinu eru nú andhetjur og klikkhausar með fósturfitu í hárinu. Ný-iðnaðarmennirnir eru sannir alkemistar - ekki að þeir búi til gull úr skít heldur fá þeir greitt í gulli fyrir að kasta skít.
   
Gallinn við þennan nýja iðnað er að þar er ekki um neina framleiðslu að ræða - hann þrífst á öryggisleysi fólks, óánægju með eigið hlutskipti, hræðslu við framfarir og því að flestir geta eytt þúsundkalli í vitleysuna. En það er ekki hægt að bæta kjör öryrkjans með því að segja skemmtilegar sögur!
   
Áróður alkemistanna hér á Íslandi hefur leitt til þess að kominn er til sögunnar hávær hópur fólks sem trúir því að hér á landi sé stunduð náttúrurányrkja á Avatar-skala. Þeir sem stjórna eru miðaldra málaliðar sem samsama sig svo feðraveldinu að þeir eru hættulegir - klikkaðir. Þeir vilja kúga náttúruna líkt og þeir kúga konur. Oflætið er slíkt að þeir vilja tvöfalda allt! Svona til að gera sögurnar enn meira krassandi er græðgi, mútum og spillingu (og nú síðast geðveiki) bætt inn. Veikgeðja ráðamenn verða ráðalausir af málflutningnum. Árangur málflutningsins endurspeglast í kyrrstöðunni sem nú kæfir allt á Íslandi vegna hræðslu stjórnmálamanna sem stjórnast af skoðanakönnunum. Ergó, alkemistarnir með málflutningi sínum verða því til þess að ekki er hægt að bæta kjör öryrkjans. Álhausar eins og ég skilja ekki svona kálhausa!

Að nærast á hörmungum

Það er hálf sorglegt að fylgjast með ráðamönnum þjóðarinnar núverandi og fyrrverandi þessa dagana.  Það er keppni í yfirlýsingum þar allir eru handhafar sannleikans  og benda hver á annan og versta skammaryrðið er að vera „samtryggingarmaður stjórnmálanna“.  Fjölmiðlar nærast á þessum hörmungum, birta þetta allt gangrýnilaust.  Almenningur situr  hjá dofinn og ráðalaus.  

 

Frá árinu 2000 til 2007 var hér á landi eins og víðast annarstaðar í heiminum gríðarlega þensla í hagkerfinu,   þar sem bullaði og sauð á öllu eins og gufuvél sem var að sprynga.  Þetta lýsti sér meðal annars í því að vinnuafl streyndi frá austur Evrópu til vesturs.   Hingað til lands komu 30 þúsund farandverkamenn svo  hægt væri að anna eftirspurn eftir vinnuafli.

Á einu ári hrundi þetta allt til grunna.  Íslensku bankarnir hrundu  á sama hátt og bankar um allan heim, stórir sem smáir. En það var ógæfa Íslands og ríkið gat ekki hjálpa bönkunum og því varð hrunið meira en ella hefði orðið.

 

Það eru mannleg viðbrög að leita að sökudólgum sem samfélagið ætlar síðan að gera ábyrgt fyrir hruninu.  Í þeim tilgangi var sett saman nefnd sem  skilaði skýrslu sem fór þá auðveldu leið að finna nokkra sökudólga, auðvitað bankamennina vondu og svo nokkra embættis–  og stjórnmálamenn.  Auðvitað á sagan eftir að dæma þessa skýrslu sem afskaplega vonda, það er ennþá tabu að segja það.  Þessi skýrsla var efnið til að næra menningarbyltingu sem svipar til þeirrar sem var í Kína um árið.  Allt sem okkur þótti göfugt og gott þykir nú sviksamlegt og vont.

  

Það eitt að skýrslan skuli innahalda það að sú alþjóðlega kreppa sem skall á árið 2008 sé ekki talin meginástæða fyrir hruninu hér dæmir að mínu viti þessa skýrslu sem vonda, afar vonda og nánast óðs manns æði  að setja hana fram í þjóðfélagi sem er nánast stjórnlaust.

   

Þessi skýrsla er notuð til að réttlæta aðför að fólki sem eflaust var ekkert að gera nema að sinna sínum störfum eftir bestu getu eða svo gott sem.  Það eru margir sem nærast ágætlega á hörmungum.  Nú hefur forsætisráðherra áttað sig á að sjónarspilið sem hún setti af stað til að sefa reiði þjóðarinnar, hafi gefið „blóðþyrstum réttlætissinnum“ of frjálsar hendur,  svo hún stekkur fram á sjónarsviðið og er nú að reyna að stöða leikinn þá er hæst stendur.

  

VG engist um af bræði og það kæmi ekki á óvart að þessi  ríkisstjórn sé að lifa sína síðustu daga, enda ágæt ástæða til að stoppa nú þegar fyrst fer að reyna á hana,  það á eftir að semja fjárlög fyrir árið 2011, niðurskurðarfjárlög.


Fá stéttarfélögin á Íslandi meira en 10 milljarða í framlög árlega?

Langflestir starfandi Íslendingar eru í stéttarfélagi að því er ég held. Þeir greiða 0,7% til 1% af launum til stéttarfélagsins en atvinnurekandi greiðir frá  1,62% til  2,25% á móti eftir því hverning samningar eru.  Þannig rennur alltaf ákveðið hlutfall af launum  til stéttarfélaga.  Á sama hátt þá renna a.m.k. 12% af launum til lífeyrissjóða og er þá ekki tekið tillit séreignasparnaðar og svo greiðir launagreiðandi 8,65% af launum til RSK sem er tryggingagjald.  Síðan kemur Skattmann og hirðir staðgreiðsluna.

Skoðum starfsmann sem hefur 400.000 kr í mánaðarlaun.  Tökum ekki tillit til séreignarsparnaðar sem hækkar launakostnaðinn um 2% eða 8.000 kr.

 

Launakostnaður fyrirtækis er 476.600 kr. (auðvitað eru launtengd gjöld fyrirtækis töluvert hærri þar sem sem starfsmaður ávinnur sér orlofsrétt og umsamdar aukagreiðslur).

 

Starfmaður fær í vasan 280.000 kr eða 59% af launkostnaði launagreiðanda.

Lífeyrissjóðurinn fær 48.000 kr eða 17% af því sem starfsmaðurinn fær

Stéttarfélagið fær 10.000-14.000 kr eða 4-5% af því sem starfsmaðurinn fær.

Ríkið fær siðan 134.600 kr annars vegar 100.000 kr í staðgreiðslu  og svo 34.600 í tryggingagjald eða 48% af því sem starfsmaðurinn fær.

  

Allt eru þetta greiðslur sem við höfum talið eðlilegar nema hvað við sjáum alltaf á eftir skattinum sem við þurfum að greiða. 

 

Ég hafði gefið mér að 400.000 kr mánaðarlaun væru nærri meðallaunum, en það er nú ekki alveg samhljómur í þessum tölum mín þar sem ef það eru 167.000 starfandi með að meðaltali með 400 þús á mánuði  þá væru launin samtals 800 milljarða en ekki  620 eins og ég get best lesið úr skýrslu Fjármálaráðuneytisins. Ef til vill er það rétt að laun séu að meðaltali nærri 300 þús en mikið ansi er það eitthvað klént. 

 

Í gögnum frá Fjármálaráðuneytinu Greiðsluafkoma ríkissjóðs Jan-Jún 2010 kemur fram að tekjur ríkisins af tryggingargjaldi sé 28.919 milljónir fyrir hálft ár. Út frá þeirri tölu má finna út að launkostaðnur launagreiðenda sé nálægt 746 milljörðum á árinu 2010. Út úr þessu má sjá að launin eru nálægt 620 milljarðar  en launatengd gjöld eru 126 milljarðar. Tekjuskattar einstaklinga eru fyrir hálft ár 47,8 milljarðar og þá má gera ráð fyrir 96 milljörðum fyrir árið í heild. Launþegar hafa því til ráðstöfunar 620 – 96 – 4% lífeyrissjóð 24 – annað 12 milljarðar = 488 milljarða eða 65% af því sem er kostnaður launagreiðenda.

 

Af þessu má sjá að lífeyrissjóðir eru fá til sín á þessu ári  74 milljarðar og þá er séreignasparnaður ekki tekinn með.  Þetta eru gríðarlegir fjármunir.  En fólk er ekki skyldað til að vera  í stéttarfélagi og því erfiðara að sjá hvað mikið af launum Íslendinga rennur til stéttarfélaga. Með einföldun geri  ég ráð fyrir að 70% starfandi fólks séu í stéttarfélagi og gjöldin séu að meðaltali 2,5% af launum þeirra. Þá renna árlega til stéttarfélaga meira en 10 milljarðar.

 

Hvað gera stéttarfélögin við alla þessa peningina?

  

Þjóðhagsstofnun in Memorian.

Nú er rætt um en endurvekja Þjóðhagsstofnun. Og því finnst mér tilhlýðilegt að rita nokkur minningarorð um gömlu Þjóðhagssofnun. En vinsamlegast ekki endurreisa þessa stofnun. Það eru til aðrar stofnanir sem geta alveg tekið að sér þau verkefni sem Þjóðhagsstofnun sinnti.  

Ég er ef til vill ekki heppilegasti aðilinn til að skrifa minningarorð um Þjóðhagsstofnum, en þar sem aðrir hafa ekki gert það sé ég mig knúinn til að gera það í þeirri von að einhverjir sem hafa miklu betri þekkingu um sögu stofnunarinnar skrifi miklu betri minningargrein en ég er að reyna að setja saman. Ég vona innilega að einhverjir af mínum fyrrverandi vinnufélögum og ég vil meina snillingum komi með góða grein um stofnunina Þjóðhagsstofnu.

Einu sinni fyrir langa löngu var ég starfsmaður á Þjóðhagsstofnun. Stofnun sem aðallega var þekkt fyrir að birta reglulega verðbólguspár. Ég var ráðinn til þess að sjá um forritun ýmiskonar. Þetta var nú rétt áður en snilldarverkfærið Excel varð nothæft svo ég hafði nóg að gera við að búa til forrit sem sáu um skráningu á ýmsum tölfræðiupplýsingum og sjá síðan um um ýmsa úrvinnslu á þeim gögnum. Þegar Excel varð nothæft varð ég sömuleiðis gagnslaus því Excel var miklu betra verkfæri en ég í hundraðasta veldi hefði nokkurntíman getað orðið. 

Ég hef aldrei unnið á vinnustað þar sem saman var komið jafn gáfað, gott og samviskusamt starfsfólk og þar fór forstöðumaður eða forstjóri (man ekki hvað starfsheitið var) Jón Sigurðsson fremstur í flokki ásamt og fleiri snillingum. Þarna var fólk sem hafði staðgóða þekkingu á samfélaginu, vel menntað og síðast en ekki síst hafði það metnað til að skila réttum og ganglegum upplýsingum til samfélagsins. En fyrst og framt var þetta allt einstaklega gott fólk.  

Eitt af mikilvægustu verkefnum að birta þjóhagsspá en mér fannst það ekki spennandi viðfangsefni.  

Á þessum árum var verðbólgan á Íslandi frá 20-80% á ársgrundvelli og eitt aðalviðfangsefni stjórnvalda var að reyna að kveða niður verðbólgudrauginn. Verðbólguspár Þjóðhagsstofnunar voru því eitthvað sem allir tóku eftir. Óvægin gagnrýni á spárnar kom síðan frá öllu samfélaginu og því slegið upp hvaða fáráðlingar það væru á Þjóðhagsstofnu sem gerðu þessar spár. En auðvitað snérist þetta allt um forsendur sem settar voru inn í líkanið og síðan ákvaranir stjórnvalda sem ákvörðuðu hvað það var mikill munur á spá og síðan raunverulegri verðbólgu.  

Eitt af verkefnum Þjóðhagsstofnunar var að búa til rekstrarlíkan  fyrir fiskveiðar og vinnslu. Það snérist um að reikna út afkomu fiskveiða og vinnslu þannig að Verðlagsstofnun sjávarútvegsins gæti ákveðið “rétt verð” á þorski og ýsu og auðvitað öllum öðrum fisktegundum sem síðan var úrskurðað sem hið eina rétta verð. Síðan notuðu stjórnvöld niðurstöðu úr þessu til að fella gengið reglulega. Það er nú ekki nema 30 ár síðan þetta var raunveruleikinn í okkar samfélagi. Vill einhver að þetta kerfi verði tekið upp aftur.  

Eitt eftirminnilegasta verkefni sem ég tók þátt í var að gera skýrslu um tekjuskiptingu Íslendinga og  athuga hvort einhverjir Íslendingar lifðu undir fátæktarmörkum. Nærtækast var að fá tekju og álagningarskrá Ríkisskattstjóra eða það sem við köllum Skattskrána, því þar má fá upplýsingar um tekjur, skatta og ráðsöfunarfé Íslendinga. Niðurstöðurnar voru skelfilegar og mig minnir að niðurstaðan væri að u.þ.b. 30% Íslendinga væru með framfærslu sem væri undir fátæktarmörkum. Allt varð vitlaust í samfélaginu. Þar sem við höfðum fengið gögnin frá skattstjóra með þvi formerki að ekki mætti birta nein gögn sem væri hægt að rekja til einstaklinga var þess vanlega gætt. Þar sem ég var sá eini sem hafði aðgang að öllum gögnum var mér í lófa lagið að kanna hverjir voru undir fátæktarmörkum. Ég get svo sem sagt það núna að það voru ekki allir fátæklingar sem voru með framfærslu undir fátæktarmörkum. Sumir auðmenn þjóðarinnar voru þarna á meðal. 

Nokkrum árum seina var ég að vinna hjá öðru fyrirtæki sem fékk það verkefni að reikna úr hverjir ættu að fá láglaunabætur. Þetta var á einhverju samdráttarskeiði og Ríkissjórnin sá ástæðu til að bæta stöðu þeirra lægstlaunuðu. Grunnur til útreikninga á bótunum var sá sami og við notuðum á Þjóðhagsstonum þarna um árið. Ég laumaði mér samviskusamlega undan því að taka þátt í verkefninu “Láglaunabætur” minnugur þeirrar útreiðar sem Þjóðhagsstofnun fékk við niðurstöðu á tekjuskiptingu Íslendinga.  Að lokum voru bótaþegar landsins fundnir. Á meðal þeirra voru sumir af ríkustu mönnum og konum landsins. Sumir sáu ástæðu til að afþakka þennan fátæktartyrk og gerðu það jafnvel opinberlega. Það varð töluvert fjölmiðlafár í kringum þetta mál. Vinur minn sem nú er látinn sá um þessa útreikninga. Mikið óskaplega hló ég dátt þegar fjölmiðlar úthúðuðu þessum vitleysingum sem sáu um þessa útreikninga.  

  

Auðvitað var það bara skattskráin sem var eitthvað skrítin en ekki þeir sem notuð hana sem grundvöll til útreikninga. 

Davíð Oddson ákvað að  leggja niður Þjóðhagssofnun. Ég sé enga ástæðu til að gangrýna hann fyrir það. Hann sem forsætisráðherra hafð sýnar ástæður til að leggja þessa stofnun niður. Í raun er ég mest hissa á að hann hafi ekki lagt niður fjölda annarra stofnanna ríkisins áður en hann lagði niður þá stofnun sem mér þótti vænst um. Ekki vegna þess að þetta var stofnun heldur alls þess góða og gáfaða fólks sem vann þar.  

Útför Þjóðhagsstofnunar hefur þegar farið fram. Þeir sem vilja minnast hennar er bennt á rannsóknarskýrslu Alþingis.


Ég er þó enn sæmilegur til heilsunnar.

 “Ég held að ég sé tiltölulega meinlaust grey. Ég á það til að vera svolítið illkvittinn, en það er bara í nösunum á mér. Ég hef svolítið gaman af því að ganga framaf fólki og þá auðvitað helst fólki sem hefur gott af því að gengið sé fram af því. Þeir sem þekkja mig vita að ég vil ekki gera flugu mein, nema það sé mjög aðkallandi, en þeir sem þekkja mig ekki halda yfirleitt að ég sé illmenni.   

  

Stundum hef ég, svona með sjálfum mér, verið að óska þess að ég væri svolítið gáfaðri en ég er, því satt að segja er nú hálfgerður bjáni. En þá hugsa ég bara í leiðinni: -          Ég er þó enn sæmilegur til heilsunnar..”

Á þennan hátt lýsti Flosi Ólafsson, leikari, skáld, hestamaður með meiru, sjálfum sér í bókinni „Í Kvosinni“. Hægt er að fræðast um Flosa á Wikipedia.org.  

 

Þegar ég las þetta fannst mér eins og Flosi væri að lýsa mér. Meinlaust grey. Svolítið Illkvittinn. Geri ekki flugu mein. En þeir sem þekkja mig ekki halda yfirleitt að ég sé illmenni.

Endirinn er stórkostlegur og á eflaust við marga.

„Stundum hef ég, svona með sjálfum mér, verið að óska þess að ég væri svolítið gáfaðri en ég er, því satt að segja er nú hálfgerður bjáni. En þá hugsa ég bara í leiðinni:

- Ég er þó enn sæmilegur til heilsunnar.”

   

Þegar ég var að skrifa þetta þá kom upp í kollinn á mér nafni minn Gnarr. Eru þeir Flosí Ólafsson og Jón Gnarr ekki svipaðir karakterar og auðvitað báðir snillingar.

    

Kv

Jón Þorbjörnsson


Er allt að verða vitlaust.

Kvenfólkið í Borgarstjórn er að gera allt vitlaust út af einhverju gríni sem Borgarstjórinn Jón Gnarr lét út úr sér. Mig grunar að þetta lið sem hefur svona harða afstöðu gegn klámi séu innst inn mestu perrarnir. Það er alþekkt að þeir sem taka hörðustu afstöðuna gegn hommum eru oft hommar sjálfir. Mikið sé ég eftir að hafa ekki kosið Besta flokkinn.

Sjúklingarnir á Útvarp Sögu eru í stríði við Eið Málfarsmola Guðnason af því að hann er að reyna að segja sannleikann um Útvarp Sögu. Að vísu hef ég ekki hlustað á þá stöð í nokkur ár fyrir utan hálf tíma hlustun fyrir ca mánuði og það staðfesti fyrir mér að sjúklingarnir eru ennþá sprelllifandi.

Einhver vitleysingur í Færeyjum gerir allt vitlaus vegna þess að hann vill ekki sitja borðhald með Jóhönnu  Sigurðardóttur vegna þess að hún er örlítið pínu pons samkynhneigð. Er einhver ástæða til að hlusta á svona vitleysing og veita honum alla þessa athygli sem hann er búinn að fá.

DV er svo sannarlega búið að nýta Biskupsperramálið. Þeir eru búnir að stórbæta bæta eigið met í endurnýtingu frétta. Er ekki komið nóg í umfjöllun um þetta dapurlega mál.

Össur Skarpi og Steingímur J eru orðnir eitthvað leiðir á samstarfsmönnu þrátt fyrir að þykja vænt um þá. Mikið skil ég þá og tek undir með Steingrími að það sé dapurlegt að menn eins og Þór Saari og reyndar miklu fleiri skuli vera a Alþingi.

Fuglahvíslið er samt við sig. Berjast eins ljón gegn Þorgerði Katrínu og Gulla Þór og auðvitað öllum þeim sem eru ekki í sama liði og DO og þeim sem eru stuðnings menn þess að kanna hvað aðild að ESB hefur upp á að bjóða.

Síðan er það átakanlega sorglegt hvað góðærið hans Steingríms var stutt. Síðasta grein hans í Fréttablaðinu var varla komin inn um bréfalúguna þegar Hagstofan tilkynni að meint góðæri var bara plat.

Bráðlega fer stóri farsinn af stað. Blóðþyrstu hundarnir berjar fyrir því að kalla til Landsdóm og rétta yfir fyrrverandi ráðamönnum. Það er svo sem mátulegt á suma þeirra en ég er ekki vissu um að samfélagið þoli þá umræðu sem mun fylgja því.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband