Er Finnbogi Jónsson með fulle femm?

Finnbogi Jónsson framkvæmdastjóri Framtakssjóðs var í viðtali á Hrafnþingi hjá Yngva Hrafni á ÍNN fimmtudaginn 2. ágúst.

Yngvi Hrafn spurði hann um fjárfestingu sjóðsins í Vestía og gerði harða atlögu að Finnboga þar sem þetta hlyti að valda ójafnvægi á markaði og tiltók Húsasmiðjuna(HS) sem dæmi á móti hagsmunum BYKO og Múrbúðarinnar og fleiri byggingavöruverslana. Finnbogi átti erfitt með að svara Yngva, en reyndi eftir bestu getu, en þarna féll Finnbogi á prófinu og skeit upp á bak. Rökstuðningur hans fyrir kaupum á Húsasmiðjunni og Plastprenti og nokkurm tölvufyrirtækjum er ekki boðlegur.

Sérstaklega varð þeim félögum tíðrætt um Húsasmiðjuna. Finnbogi mótmælti ekki þeirri fullyrðingu Hrafns um að Landsbankinn þarf að greiða með Húsasmiðjunni a.m.k. 500 mkr og með Plastprent 1.000 mkr. Finnbogi sagði að ef HS færi á hausinn þá tapaði öll þjóðin og starfsmenn BYKO einnig. En hann gerir sér engan veginn grein fyrir að BYKO eins og önnur fyrirtæki hefur fækkað starfsmönnum hjá sér veruleg.  Á meðan er HS að fá rekstrarstyrki frá Landsbanka. Vill Finnbogi þá meina að starfsmenn HS séu verðmætari og rétthærri en starfsmenn BYKO sem búið er að segja upp? Það sama á við um starfsmenn í plastiðnaði og tölvugeira, en svo virðist sem sumir starfsmenn og fyrirtæki séu rétthærri en aðrir.

Finnbogi virðist ekki gera sér grein fyrir að hann er að nota almannafé til að raska samkeppni á markaði og virðist ekki hafa hugmynd um að það er í hæsta máta óeðlileg inngrip sem í senn eru ósanngjörn og leiða að lokum til hærra vöruverðs og verri afkomu samkeppnisaðila og jafnvel til þess að þeir verði gjaldþrota.

Raunveruleikinn er sá að í þenslunni sem fylgdi góðærinu var mikil gróska í verslun og þjónustu og fyrirtæki aðlöguðu sig að eftirspurninni.   Við hrunið snarminnkaði eftirspurn og verslunarfyrirtækin hafa þurft að draga saman seglin og segja upp starfsfólki. Er eitthvað óeðlilegt að einhver fyrirtæki hverfi af markaði svo þau sem hafa spjarað sig geti haldið lífi?  Eða er það eitthvað sérstakt markmið Framtakssjóðs að fella þau fyrirtæki sem ennþá lifa?

Finnbogi beit síðan höfuðið af skömminni með því að benda á enginn hafi kvartað þegar Framtakssóður fjárfesti í hlutabréfum Icelandair og taldi sig vera að réttlæta kaup á HS þar sem eigandi BYKO hafi ekki gert athugasemd vegna kaupa Framtakssjóðs á hlutabréfum í Icelandair og hafi þar með bjargað því fyrirtæki.

Finnbogi virðist ekki gera sér grein fyrir að flugrekstur og byggingarvöruverslun eru ekki sambærilegar atvinnugreinar. Icelandair er leiðandi fyrirtæki í flugsamgöngum Íslendinga og samræmist því fjárfestinarstefnu Framtakssjóðs. Það eru mörg fyrirtæki sem starfa á byggingavörumarkaði og framleiðslu á plastumbúðum og  að það sé ekki minnst á tölvumarkaðinn þar sem allt er vaðandi í góðum fyrirtækjum. Það er enginn ástæða fyrir lífeyrissjóðina að hasla sér völl á þessum mörkuðum með því að endurvekja dauðvona fyrirtæki, nema að það sé metið þannig að starfsmenn sumra fyrirtækja séu rétthærri en aðrir.

 Verðum við ekki að gera þá kröfu til þeirra sem fara með almannafé að þeir hafi skilning á hvötum hagkerfisins. Skilning á framboði og eftirspurn og hvað kraftar það eru sem skapa sterkt hagkerfi. Það er alveg ljóst að kommúnísk hagfræði er nánast dauð, en því miður eru þessu kaup Framtakssjóðs á Vesti lifandi dæmi um að lengi lifir í glæðunum.

Við Íslendingar eigum kröfu til þess að starfsmenn í opinberri stjórnsýslu og þeir sem fara með almannafé reyni að starfa af skynsemi og reyni ekki ekki að raska þeim lögmálum sem knýr hagkerfið áfram.  

Stjórn Framtakssjóðs skipa: Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, Auður Finnbogadóttir, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar, Baldur Þór Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Guðfinna Bjarnadóttir, fyrrverandi alþingismaður, Ragnar Önundarson, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs  Háskólans í Reykjavík, og Vilborg Lofts, rekstrarstjóri heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Ég trúi því og veit að þessir stjórnarmenn eru afbragsfólk upp til hópa og sumir hafa verið talsmenn frjálsrar samkeppni. Ég trúi ekki öðru en að þetta fólk stöðvi þennan gjörning sem er að mínu viti algert glapræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband