Athyglisverð grein á Eyjunni 11. apríl 2008.

 

Seðlabankinn spáir samdrætti og 30% raunlækkun húsnæðisverðs - Leggur til útgáfu skuldabréfa sem liðki gjaldeyrisskiptamarkað

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti bankans um 0,5 prósentur í 15,5% í morgun. Vaxtahækkunin fylgir í kjölfar 1,25 prósentu hækkunar 25. mars sl.

Bankastjórnin segir í stefnuyfirlýsingu í ársþriðjungsriti sínu Peningamálum sem kom út í dag, að þjóðarnauðsyn sé á að hemja verðbólgu. Á fyrsta fjórðungi ársins hafi hún orðið 2 prósentum meiri en spáð var í nóvember sl. og horfur séu á að hún aukist enn í kjölfar þeirrar gengislækkunar sem orðið hefur á undanförnum vikum áður en hún tekur að lækka á ný.

Samkvæmt grunnspá bankans nær verðbólgan hámarki á þriðja fjórðungi ársins í tæplega 11%. Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir uppbyggingu fyrsta áfanga álvers í Helguvík í grunnspánni.

Davíð Oddsson, formaður bankaráðs sagði á fundi með fréttamönnum í morgun skv. mbl.is að ekki væri óeðlilegt að gjaldeyrisforði Seðlabankans yrði tvöfaldaður. Það mætti hins vegar ekki gleyma því að það kostaði stórfé að halda úti stórum gjaldeyrisvarasjóði. Hann segir afar óvarlegt að telja að þeir erfiðleikar sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum séu að baki.

Davíð segir að Seðlabankinn sé ekki á leiðinni til að fá lánaða peninga fyrir bankana líkt og ráðamenn þjóðarinnar vilji enda telji Seðlabankinn að bankarnir séu það vel staddir. Þeir hafi sýnt afar góða afkomu og allt bendi til þess að þeir hafi ekki verið of áhættusæknir líkt og erlendir fjölmiðlar hafa haldið fram.

Í grunnspánni, sem nær til  ársloka 2010 er gert ráð fyrir að verð á íbúðarhúsnæði lækki um u.þ.b. 30% að raunvirði á spátímabilinu, en sagt um leið að gríðarleg óvissa sé um þessa þróun.

„Gangi það eftir mun hækkun íbúðaverðs umfram almennt verðlag undanfarin fimm ár ganga að mestu leyti til baka. Verðið yrði eftir sem áður ekki lágt í sögulegu samhengi. Gríðarleg óvissa er um þessa þróun, m.a. vegna þess að hún kann að hafa umtalsverð áhrif á útlánagetu fjármálakerfisins. Ekki er því hægt að útiloka enn meiri samdrátt á fasteignamarkaði," segir í kaflanum Þróun og horfur í efnahags- og peningamálum.

Í Stefnuyfirlýsingunni segir ennfremur: „Vaxtahækkun 25. mars er fylgt eftir með þeirri ákvörðun sem nú er kynnt þar sem verðbólguvæntingar eru enn mjög miklar. Þær hafa vaxið og eru nú meiri en um langa hríð. Þær verða að hjaðna.

Þjóðhagsspá sem birtist í Peningamálum nú bendir til þess að samdráttur verði á spátímanum, 2,5% samdrátt landsframleiðslu 2009 og 1,5% 2010. Sú þróun er í raun óhjákvæmileg aðlögun þjóðarbúskaparins eftir margra ára ójafnvægi. Þrátt fyrir það verður meðalhagvöxtur áranna 2005 til 2010 viðunandi.

Dregið hefur úr innstreymi fjármagns og fjármögnun viðskiptahallans verður dýrari en undanfarin ár. Vegna mikilla skulda heimila og fyrirtækja mun gengislækkunin sem orðin er hafa samdráttaráhrif en viðvarandi verðbólga kemur skuldsettum heimilum og fyrirtækjum verst og grefur undan stöðugleika fjármálakerfi sins til lengri tíma. Það er því þjóðarnauðsyn að verðbólga verði hamin.

Forsenda þess að beita megi peningastefnunni til þess að bregðast við samdrætti í efnahagslífi nu er að verðbólga sé hófleg. Raungengi fór nærri sögulegu lágmarki og gengi krónunnar er óæskilega lágt. Aðlögun raungengis að langtímajafnvægi getur annað hvort gerst með hækkun gengis eða verðlags. Varanleg gengislækkun við núverandi aðstæður skilar sér fljótt í hærra verðlagi. Spenna er enn á vinnumarkaði og framleiðsluspenna veruleg. Æskilegt er að gengi krónunnar styrkist frá þeirri dýfu sem það tók í mars. Vaxtahækkunin 25. mars, ásamt öðrum aðgerðum sem þá voru kynntar, studdi við gengi krónunnar. Það hefur hækkað nokkuð síðan.

Vaxtahækkun ein og sér leysir ekki vandann sem skapast hefur á gjaldeyrisskiptamarkaði. Aukin útgáfa tryggra skuldabréfa sem eru aðgengileg erlendum fjárfestum ætti hins vegar að opna aðra farvegi gjaldeyrisinnstreymis.

Brýnasta verkefni Seðlabankans er að ná verðbólgumarkmiðinu eins fljótt og auðið er. Miklir eftirspurnarhnykkir undanfarinna ára og óvenjuleg skilyrði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hafa tafið það verk. Engin efni eru til þess að gefa eftir í þeirri baráttu," segir að lokum í inngangi Peningamála í dag.

Seðlabankinn tilkynnti engar aðgerðir af sinni hálfu í dag til að taka á lausafjárvanda íslensku bankanna.

Þess í stað velti bankinn aðeins upp mögulegum aðgerðum til að bæta úr ástandinu á skiptasamningamarkaði hér á landi, sem Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformaður Baugs Group í sagði viðtali við Viðskiptablaðið í dag að væri orðið stórhættulegt.

"Ef ekkert verður gert í því næstu tvo daga held ég að markaðurinn fari niður aftur og krónan fari á hliðina. Ég held að menn verði að sjá til þess að það sé gjaldeyrisflæði á Íslandi svo einstaklingar og fyrirtæki geti átt viðskipti með gjaldeyri," segir Jón Ásgeir.

Bankinn segir í Peningamálum um þetta atriði: „Nauðsynleg forsenda þess að skiptasamningamarkaður færist í eðlilegt horf á ný er betri fjármögnunarskilyrði íslensku bankanna (þar sem Íslandsálagið er nátengt skiptasamningamarkaðnum). Mögulegir þættir sem gætu komið því til leiðar eru að lánsfjárkreppan hjaðni eða að skuldatryggingarálag bankanna lækki í kjölfar jákvæðra atburða í efnahagslífinu. Aðgerðir stjórnvalda geta engu að síður stuðlað að aukinni virkni á  skiptasamningamarkaði við núverandi aðstæður.

Ein möguleg aðgerð stjórnvalda væri að gefa út ríkistryggð innstæðubréf (e. certifi cates of deposits - CDs) sem erlendir aðilar hefðu greiðan aðgang að. Slík aðgerð yki aðdráttarafl hárra vaxta hérlendis gagnvart erlendum fjárfestum og stuðlaði að auknum seljanleika á skiptasamningamarkaði. Hugmyndin er að fá fjárfesta til að kaupa innstæðubréfin án þess að þeir þurfi að tengjast íslensku bönkunum á nokkurn hátt. Mögulega kysu þeir að selja krónurnar framvirkt og fá í staðinn erlendan gjaldeyri til að komast framhjá gjaldmiðlaáhættunni.

Aðgerðin ætti því að auka framboð króna á markaði með framvirka samninga og lækka framvirkt verð krónunnar. Að auki ættu kaup á krónum á gjaldeyrismarkaði að stuðla að gengishækkun krónunnar. Skilvirkni á skiptasamningamarkaðnum ætti að aukast og bilið að minnka á milli innlendra millibankavaxta og afleiddra vaxta á skiptasamningum með krónu.

Annar möguleiki er að auka framboð lausafjár í erlendum gjaldeyri með því að taka upp gjaldmiðlaskiptasamninga á grundvelli eigna Seðlabanka Íslands í erlendum gjaldeyri. Slík aðgerð krefst þó meiri gjaldeyrisforða eða skiptasamninga við aðra seðlabanka. Seðlabankinn gæti með þeim hætti dregið verulega úr markaðsbresti vegna lausafjárskorts."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband