Fiskveiðistjórnun.

Grein eftir Hannes Hólmstein tekin af Pressunni þann 11.11.2010 þar sem hann fjallar um grein Dr. Ragnars Árnasonar þar sem Ragnar rökstyður hagkvæmni núverandi stjórnkerfis fiskveiða.  

Erindi Ragnars Árnasonar

Dr. Ragnar Árnason prófessor er okkar eini sérfræðingur í fiskihagfræði, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar (ásamt Rögnvaldi Hannessyni í Björgvin). Fróðlegt er að heyra, hvað hann sagði á nýliðnum aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, og styðst ég þar við endursögn Fiskifrétta og Andríkis.is:

 

Ragnar sagði í erindi sínu að sjávarútvegur væri mikilvægasti atvinnuvegur landsins og undirstaða annars atvinnulífs. Beint framlag hans til vergrar þjóðarframleiðslu væri 8-9% en þær tölur segðu aðeins hluta sögunnar. Þjóðhagsreikningar mældu aðeins laun og hagnað „en ekki hvernig framlagið margfaldast í gegnum þjónustugeirann. Hagmælingar benda til þess að sjávarútvegurinn standi undir 16-25% af því sem við höfum að bíta og brenna á Íslandi. Því er gríðarlega mikilvægt að reka sjávarútveg á eins hagkvæman hátt og frekast er unnt."

Sumir halda að aflamarkskerfið sé séríslenskt, og þá auðvitað spilling eins og sumir ímynda sér að flest sé á Íslandi. Svo er alls ekki. Aflamarkskerfi er algengasta fiskveiðistjórnarkerfi í heiminum og fjölgar stöðugt þeim ríkjum sem taka það upp. Meðal þeirra fjölmörgu ríkja sem nú nota aflamarkskerfi eru Ástralía, Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Kanada, Noregur, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland.

Eitt af því sem margir hafa á heilanum er úthlutun kvótaréttinda. Um hana sagði Ragnar í erindi sínu: „Kvótaréttindum er nánast alltaf úthlutað til þeirra sem í greininni eru, sennilega í 99% tilfella. Í örfáum undantekningartilvikum, t.d. í stöku ríkjum í Afríku, er um stjórnvaldsákvarðanir að ræða. Þá eru uppboð á kvótum afar sjaldgæf. Ég hef aðeins fundið fjögur dæmi um slíkt í heiminum. Í tveimur tilvikum, í Eistlandi og Rússlandi, var kvótauppboðum hætt aftur eftir tvö ár, en [í] hinum tveimur eru uppboð ennþá tíðkuð. Annars vegar um að ræða skelfiskveiðar í Washingtonríki í Bandaríkjunum og hins vegar litlar fiskveiðar í Suður-Chile."

Þá sagði Ragnar að sérstök skattlagning á fiskveiðar í aflakvótakerfum væri afar sjaldgæf, hefði hann aðeins um það tvær undantekningar og væru það lönd með mjög takmarkaða skattstofna. Sérstök skattlagning á sjávarútveginn væri efnahagslega skaðleg, brenglaði rekstrarskilyrði, drægi úr framförum í sjávarútveginum, drægi úr alþjóðlegri samkeppnishæfni sjávarútvegsins og færði framtak og fjármuni milli atvinnuvega. Jafnframt myndi hún ef til vill draga úr skatttekjum þegar fram í sækti.

Lokaorð Ragnars mættu verða öllum til umhugsunar:

Til þess að kvótakerfi skili mestum árangri verða réttindin að vera örugg, þannig að handhafar þeirra geti treyst því að þau verði ekki tekin bótalaust af þeim. Þau þurfa að vera varanleg að minnsta kosti til mjög langs tíma og framseljanleg til að hagkvæmustu fyrirtækin stundi veiðarnar. Öruggar varanlegar aflaheimildir skapa langtímahugsunarhátt. Hvata til þess að byggja upp fiskistofna, hvata til hagkvæmrar nýtingar og verndunar lífríkisins, til skynsamlegra fjárfestinga í skipum, til að fjárfesta í og byggja upp markaði og til hagkvæmra rannsókna og þróunar. Allt sem rýrir kvótaréttindin dregur úr hagkvæmni kvótakerfisins, lækkar framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins og grefur undan framtíð þjóðarinnar. Stjórnvöld ættu því fremur að kappkosta að styrkja þessi réttindi en veikja þau.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Þetta er allt saman gott og blessað og lítill vafi á að meiri árangur náist í stjórnun fiskveiða með kvótakerfi en öðrum kerfum. Í lokaorðunum er hins vegar hugsunarvilla: Þar er tvennt sagt.

Annars vegar er sagt að því meiri vissa sem er um aðgang að heimildum/hráefni til frambúðar, því meiri hagkvæmni verður í fjárfestingum. Þetta er hárrétt. Það vita allir sem hafa stundað rekstur að því meira sem vitað er um framtíðina því auðveldara er að skipuleggja sig rétt.

Það er hins vegar rangt að álykta af þessu að kvótinn þurfi endilega að vera varanlegur. Það er alveg nóg að vitað sé að hann er til staðar og hvernig verðmyndun á honum er háttað. Í rauninni er mikilvægara að vita fyrirfram hver heildarkvótinn verður en að hafa einhvern hluta hans til ráðstöfunar um alla eilífð.

Hins vegar er sagt að með varanlegum heimildum skapist hvati til hagkvæmrar nýtingar og verndunar lífríkisins. Það getur vel verið en það kemur málinu einfaldlega ekkert við. Útgerðarmenn rækta ekki fiskistofnana og þeir stýra ekki veiðimagninu. Þeir veiða einfaldlega það sem þeir fá úthlutað. Ríkið stjórnar því hverjar heimildirnar eru.

Þessar tvær meginröksemdir fyrir varanlegum aflaheimildum fremur en skammtímaheimildum eru því villuljós. Fyrri ályktunin er einfaldlega röng og sú síðari kemur málinu ekki við.

Þorsteinn Siglaugsson, 11.11.2010 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband