18.11.2010 | 10:52
Eru grunnskólarnir okkar góðir eða slakir?
- Ein mamman varpaði fram þeirri spurningu hvort það væri eitthvað happdrætti hvort börn fengju góða eða slæma menntun í grunnskóla og var þar að vísa til þess hvort gæði kennara væru alltaf þau sömu. Ég er nokkuð viss um flestir kennarar eru mjög góðir en nokkrir eru afar slakir.
- Það er algengara en ég hélt að börn væru afar óhamingjusöm í skólanum og fyrir því geta verið margar ástæður.
- Með afnámi samræmdu prófanna er eini mælikvaðinn sem almenningur hefur haft til að mæla skólastarf ekki til staðar lengur. Það á einnig við um framhaldsskólana sem eiga erfitt með að meta hvað börnin kunna eftir að hafa lokið 10 árum í grunnskóla.
Það eru eflaust margir sem sakna ekki samræmdu prófanna þar sem þau reyndu töluvert á nemendur. Þar sem þau voru aflögð geri ég ráð fyrir að þeir sem fara með stjórn menntamála hafi talið meiri galla við þau en kosti. Mér er alveg fyrirmunað að skilja að samræmd próf skuli hafa einhverja galla umfram þann að það er settur stimpill á unglingana sem segir til um hvort þau séu hæf til áframhaldandi náms. Nú er enginn mælikvarði sem hægt er að setja á grunnskólann sem metur hvort skólastarfið sé gott, í lagi eða slakt. Er það ekki óhollt fyrir skólastarf að missa út þennan mælikvarða. Hverning eiga foreldrar að meta hvort það hvort skólinn sé að sinna sínu starfi eða ekki.
Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið mikill námsmaður þá geri ég þá kröfu til barnanna minna að þau sýni a.m.k. þokkalegan árangur í skólanum og er tilbúinn til að aðstoða þau til þess. Sjálfur þurfti ég að fara í Landspróf til þess að fá þá niðurstöðu að ég stæðist þær kröfur sem gerðar voru en þó ekkert meira en það, einkunnin 7 á Landsprófi var svona rétt rúmlega í lagi en ekkert meira en það. Þrátt fyrir einkunina sjö á þennan mælikvarða gat fjölskyldan mín ekkert gert til að bæta minn hag þar sem ég var af þeirri kynslóð sem fyrst fékk að vera í skóla að vild. Greiður aðgangur að menntaskóla og síðan háskóla var ekkert vandamál fyrir mína kynslóð, en það sama átti ekki við um foreldra mína sem höfðu aðeins nokkra mánaða skólagöngu að baki. En i dag eru foreldrar flestir hverjir vel menntaðir og geta gripið í taumana ef börnin eru ekki að ná árangri með því að aðstoða þau við heimanámið.
Niðurstöður samræmdu prófanna voru birtar opinberlega og þar var hægt að sjá meðaleinkunnir í hverjum skóla. Þetta vakti athygli mína og þá sérstaklega að einn skóli á Vestfjörðum skar sig úr fyrir slakan árangur og síðan virtust skólar á Suðurnesjum fá slaka útkomu. Það má ef til skýra þetta að hluta með því að viðhorf almennings á þessum svæðum er ekki hliðhollt skólastarfi eða nemendur á þessum svæðum eru slakir námsmenn eða þá að kennararnir eru ekki hæfir. Þarna verður að hafa i huga að meðaltalið gildir og frá þessum svæðum hafa auðvitað komið afburða námsmenn. Ég reyndi einnig að gera samanburð á milli skólanna í mínu hverfi. Auðvitað var einn skólinn með bestu niðurstöðu og annar með verstu en það kom mér á óvart hvað það var mikill munur. Þegar meðaltalstölur eru skoðaðar þá er munur á meðaleinkun 6 í einum og 5 í öðrum skóla á í sama hverfi mikill munur og verður tæplega skýrður nema með því að kennsla í öðrum skólanum er töluvert lakari en í hinum. Eflaust má finna fleiri orsakavalda eins og samsetningu byggðar, misjafn efnahagur og menntun foreldra og svo framvegis.
Ég veit ekki hvort skólarnir hafi brugðist við þessu en ég þekki til í tveimur skólum og ég veit að í einum skólanum sem var með slaka útkomu í stærðfræði hafði skólastjórinn áhyggjur af stærðfræðikennslu í sínum skóla. En það var erfitt að leysa úr því þar sem hann varð að ráða fólk með kennaramenntun og það er ljóst að kennarar frá KHÍ eru ekki allir vel að sér í stærðfræði. En skólarnir verða að nýta þá starfskrafta sem þeim býðst og hafa réttindi. Þetta er dæmi um það sem var nefnt í upphafi að það getur verið svolítið happdrætti hvaða menntun börnin fá.
Það virðist sem mörgum börnum líði ekki vel í skólanum og fyrir því geta verið margar ástæður. Börn verða fyrir einelti, er hafnað af hópnum eða þau eru með námsgetu umfram eða undir því sem krafist er.
Mér finnst það óviðunandi að einelti skuli ennþá líðast í skólum. Allir skólar segjast hafa einhverja viðbraðsáætlun við einelti og kallast hún Olevius eða eitthvað svoleiðis. Ég hef það á tilfinningunni að þessar áætlanir séu betri á pappír en þær eru til að koma í veg fyrir einelti. Í mínum huga dugar það einungis að tala tæpitungulaust yfir hausmótunum á gerendum og ef það dugar ekki þarf að taka í lurginn á þeim. En það er víst bannað og því eiga skólayfirvöld erfitt með að höndla gerendur. En ég verð ekki var við að skólayfirvöld sækist eftir þeim rétti að fá að taka aðeins á erfiðum nemendum. Það getur fríað þau frá því að taka á alvarlegum vandamálum sem tengjast örfáum einstaklingum sem eru færir um að eyðilega skólastarfið fyrir öllum öðrum.
Við leggjum mikla fjármuni til menntamála og eigum að gera kröfur til þess að skólarnir skili góðum árangri. En það byggist á því að starfsmenn skóla gera hvað þeir geta til að sinna þörfum nemenda en það er ekkert síður krafa á að nemendur leggi sig fram og beri virðingu fyrir skólastarfinu. Ég get ekki sé að þeir nemendur sem eru að vinna með skólanum sýni starfsemi skólanna mkila virðingu. Ég hefði talið að það væri fullt starf að vera í skóla.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.