2.3.2011 | 13:55
Ég er svo hræðilega veikur
Í gærmorgun fór ég í leikfimi og svo aftur klukkan hálffimm og svo spilaði ég skvass í einn og hálfan tíma. En ég var eitthvað domm. Nasirnar stíflaðar og enginn kraftur í kallinum. Báðar nasir klossstíflaðar.
Ég velti því fyrir mér hvort ég væri kominn með hita. Nei fullorðnir karlmenn verða ekki veikir þrátt fyrir að þeir fái kvef. Átti ég að fá mér Panódíl og Neseril eða eitthvað til að lækna þetta? Nei ég hef ekki orðið veikur í áratug og fer ekki að éta einhver kerlingalyf til að losna við kvef. Nei líkaminn verður að vinna á þess.
Djöf.. var ég slappur þegar ég vaknaði í morgun. Hálsinn eins og sandpappír og tennurnar eins og oddhvassir demantar sem skera tunguna við minnstu snertingu. Ætli þetta sé helv.. svínaflensan, er hún ekki komin aftur? Hvað kvikindi hefur smitað mig af svínaflensunni? Ég skal komast að þvi hver smitaði mig og hefna mín rækilega.
Ég drattaðist fram og spurði fjölskylduna hvort það væri til pensilín eða eitthvað til þess að hjálpa mér að lifa af daginn. Ég fékk engin svör. "Þú ferð ekki í leikfimi í dag" heyrðist í konunni. Ég var líka kominn með eyrnarverk eða eyrnarbólgu. "Er örugglega ekki til neitt pensilín?". Auðvitað er ekki til neitt svoleiðist, en það er til Panódíl og Íbúfen og svo auðvitað Heilsutvenna eða þrenna og lýsi. Ég hefði átt að vera duglegri að taka lýsi, lýsi með sítrónu sem er ógeðsdrykkur af verstu sort.
Svo fór ég í leikfimi. Einhver verður að stjórna feitu fimleikadrengjunum. Þeir hreyfa sig ekki nema ég segi þeim að gera það. Síðan fór ég í vinnuna og horfði á skjáinni í fimm mínútur og þá tók ég þá ákvörðun um að vera veikur. Fullorðinn maður veikur heima af því að hann er kvefaður. Þetta er hrikalega niðurlægjandi. Ég sem er búinn að tala svo illa um þessa aumingja sem eru kvefaðir heima og hef verið sannfærður um að þeir eru bara að nota umsamda veikindafrídaga sem eru tveir í mánuði.
Í hádeginu kom eiginkonan heim með kók handa veika stráknum sínum. Það hefur myndast sú hefð í gegnum tíðina að þeir sem eru veikir heima fái kók, eins og það sé einhver mixtúra. Svo sagði hún. "Jón það var svo gaman þegar þú vart farinn í morgun. Matti lék þig svo vel. Hann svo staulaðist um og sagði "Er til penisilín, er til penisilín, ég er svo slappur".
Það er gott að einhver sér björtu hliðarnar á veikindum mínum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.