Skemmtilegur veiðitúr sem hafði hræðilegar afleiðingar.

Ég fór í í veiðitúr með Veiðiklúbbnum Áka eitt haustið. Veiðiferðin var skemmtileg að venju,   nóg var af mat og drykk í 3 daga. Við vorum að veiðum frá 8 að morgni fram til 9 að kveldi. Síðan hefst það skemmtilegasta, en það er að matreiða og bæta aðeins við áfengisneyslu dagsins og hefja síðan venjulegt þras  við veiðfélagana. 

 

Allir veiðitúrar taka enda og við höldum heim á leið.  Daginn eftir að ég kom heim varð mér alveg hræðilega illt í maganum eða efri hluta magans. Verkurinn ágerðist og að lokum varð hann óbærilegur og ég lagist á gólfið og emjaði. 

 

Ég reyndi að útskýra fyrir Brynju að sennilega væri ég með vægt hjartaáfall og því réttast að ég færi upp á Slysó.  Brynja brást rólega við og taldi að ég væri eins og aðrir karlar með lágan sársaukastuðul  og svo bætti hún við. „Jón þú veist ekki hvað er að eignast 18 merku barn, ég held að þá myndir þú emja.“ 

 

Það var ljóst að ég fengi engan stuðning frá Brynju svo á leitaði til Þorbjörns og spurði hann hvort hann gæti skutlað mér upp á Slysó.  Hann virtist hafa meðönkun með föður sínum og keyrði mig upp á Slysó.

 

Þeir sem hafa komið á Slysó seint að kvöldi vita að þar er misjafn sauður, sumir drukknir með bardagaáverka. Þar sem móttökuritarinn sá hvað ég bar mig aumlega komst ég fljótlega undir manna hendur.

 

Fyrst kom stúlka sem ræddi við mig um ástandið en kallaði fljótlega á aðra konu sem ég held að hafi verið læknir og sennilega  eitthvað reyndari.  Hún þreifaði eitthvað á kviðnum á mér og svo merkilega vildi til að verkurinn byrjaði að linast og þá byrjaði hún að yfirheyra mig.

 

Læknirinn:  „Hefur þú verið að borða eitthvað sérstakt undanfarið eða verið að gera eitthvað sérstakt sem gæti valdið þessu.“

 

Ég:  „Nei, nei, ég var bara í veiðitúr um helgina og svo fór ég í vinnu í dag og fann ekkert óeðlilegt.

 

Læknirinn horfi ásakandi á mig og spyr: „Þið hafið þá borðað eins og svín og verið fullir allan tímann.“

 

Ég kunni ekki við að játa, en svarði:  „Ég borðaði ekkert svakalega mikið og drakk ekkert rosalega.“

 

Nú var verkurinn farinn að minnka verulega og hún leita á mig hvössum augum:.

 

Læknirinn:  „Það er alvanalegt að hingað komi menn eftir veiðitúra með svipuð einkenni og þú, þrátt fyrir að hafa ekki  borðað neitt  svakalega né drukkið neitt rosalega mikið.“

 

Ég skömmustulegur:  „Það er svo merkilegt að verkurinn er nánast horfinn.“

 

Síðan yfirgef ég Slysó hálf skömmustulegur og Þorbjörn ánægður að heimta föður sinn úr helju og við förum heim.  Þegar heim er komið er Brynja steinsofandi. Ég hafð búist við að hún sæti í sófanum og biði milli vonar og ótta að heyra af örlögum mínum. Nei hún var steinsofandi inni í rúmi.  Ég tóka aðeins í tána á henni þannig að hún rumskaði.

 

Ég: „Brynja hafðir þú engar áhyggjur af mér, ég gæti þess vegna verið dáinn úr hjartaáfalli og þú ert steinsofandi. „

 

Brynja umlar hálfsofandi: „Ef það hefði verið eitthvað alvarlegt að þér Jón minn, þá hefði verið hringt í mig.“  Með það sama var hún sofnuð aftur.  Ég stóð áfram við rúmið og horfði á Brynju, en mér fannst ég vera hálf munaðarlaus.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband