Er körfuboltinn í tilvistarkreppu?

Nú er úrslitakeppni körfuboltans í fullum gangi og ljóst hvaða lið leika í fjögurra liða úrslitum. Ruslið er dottið út. Eftir standa aðeins liðin sem unnu heimavinnuna sína. Heimavinnan fólst í því að velja réttu útlendinga. 

 

Aðalleikarinn er svartur Kani. Það er aðeins heimilt að hafa einn Kana, en með smá útsjónarsemi geta sum lið haft tvo. Svo bætast við tveir næstum-aðalleikarar og þeir eru yfirleitt frá gömlu Júgóslavíu, en einstaka koma frá N-Evrópu. Hvert lið hefur síðan einn til tvo Íslenska leikmenn sem eru taldir aðal-aukaleikarar. Afgangurinn af hópnum  fimm leikmenn sem allir eru íslenskir hafa það hlutverk að sitja á varamannabekknum og hvetja félaga sína til dáða og að sjálfsögðu eru þeir hluti af liðsheildinni þ.e. hópnum sem hópast saman rétt áður en dómarinn setur leikinn af stað. Þeir öskra allir í einum kór eitthvað eitt orð sem getur verið nafnið á félaginu þeirra eða "berrrrrrjumst". Þeir koma stundum inn á völlinn þegar annað lið er komið með svo mikla forystu að úrslit leiksins eru ráðin. En af einhverjum ástæðum er ekki talið æskilegt að aðalleikarinn og helstu aukaleikarar sjái um þann leikþátt. En þetta gerist tvisvar til þrisvar á vetri. Þessi kafli í leikritinu heitir "aukaleikararnir öðlast keppnisreynslu".

Liðið er því byggt þannig upp.

Einn aðal-leikmaður.

Tveir næstum-aðalleikmenn.

Tveir til þrír næstum-aukaleikmenn

Aukaleikmenn (var í gamla daga kallað rest og rusl).

Hvert lið leggur mikið upp úr því að hafa sitt lið svolítið NBA-like. Þjálfarar og aðstoðarmenn eru að jafnaði í jakkafötum með bindi eins og þeir séu að fara í brúðkaup. Þetta atriði er tekið beint úr NBA-leikritinu.  Kynnig á leikmönnu er ekki áhorfendum bjóðandi nema það sé NBA-like stæll á henni með tilheyrandi ljósagangi. Þeir sem ekki geta boðið upp á þetta telja sig ekki hafa náð fullum þroska í að halda heimaleiki og skammast sín fyrir vikið. Þetta getur stundum virst svolítið hjákátlegt þegar leikmenn með öllum aukaleikurum eru fleiri en áhorfendur. Þvi miður eru íslensku keppnishúsin það lítil að ekki er hægt að skjóta upp flugeldum innanhúss eins og í NBA.

Það væri eflaust hægt að halda þessu handriti óbreyttu ef ekki væri fyrir þá staðreynd að það virðist sem einhverjir hafi gefist upp á þessu og leikritið er að verða svolítið leiðinlegt. Áhorfendum fjölgar ekki, það virðist ekki vera að þetta höfði til nema örfárra. Þessi uppsetning er dýr og ég hygg að sumir leikstjórnendurnir (stjórnarmenn deildanna) séu margir orðnir þreyttir á þessu leikriti. Það þarf  að útvega húsnæði fyrir alla þessa útlendinga, bíla og innbú. Síðast en ekki síst þarf sérkunnáttu til að gera þá löglega leikmenn hérlendist þar sem það þarf að fylla út endlaust af pappírum og sumt af því sem þarf til að uppfylla kröfur er nánast ómögulegt að nálgast.  Síðan þarf fullt af peningum til að láta sjóið ganga.

Það sem varð til þess að ég setti þessar hugsanir á rafrænt form er að ég horfði á leik Keflavíkur og Snæfells þar sem Snæfell sópaði Keflavík léttilega út af sviðinu. Þetta stórveldi í körfuknattleik hefur verið óheppið með útlendinga í vetur þrátt fyrir að þeir hafi sennilega bestu aukaleikarana og sumir þeirra gætu leikið hlutverk næstum-aðalleikara. Það er bara svo langt síðan þeir gerðu það að þeir eru búnir að gleyma handritinu. Þeir hafa ekki unnið heimavinnuna sína. Þeir sem búa í næstu götu við útlönd og hafa gert næstum allt NBA-like. Að auki voru sárafáir áhorfendur sem er undarlegt þar sem Keflavík er nánst Mekka körfuboltans á Íslandi.

Nú eru nánast allir íslenskir leikmenn í hlutverkum aukaleikara og hafa það helsta hlutverk að safnast saman með hinum og öskra tilkomumikið "berrrrrrrjumst". Það væri verðugt verkefni að öll félögin tækju sig saman og tefldu fram íslenskum leikmönnum í aðalhlutverkum. Ef það gerist ekki þá eignumst við aldrei aftur neina leikmenn eins og Val Ingimundarson eða Teit Örlygsson.  

Hverfum aðeins til baka i tíma og reynum að gera þetta svolítið íslenskt. Íslenskur körfubolti þarf ekki að vera svona NBA-like. 

Kv JÞ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband